Stephen Jackson hefur fengið ósk sína uppfyllta og hefur verið skipt frá Golden State Warriors til Charlotte Bobcats. Í hans stað koma Raja Bell og Vladimir Radmanovic en ásamt Jackson fer leikstjórnandinn Acie Law til Bobcats.
Þetta er lokafléttan í mikilli dramatík hjá Jackson og forsvarsmönnum Golden State, en húllumhæið hófst fyrir alvöru þegar Jackson tilkynnti í sumar að hann vildi komast burt. Kom það á óvart þar sem hann var nýbúinn að fá nýjan samning við liðið, hann var fyrirliði og virtist hafa fengið ótakmarkað skotleyfi inni á vellinum hjá þjálfaranum margreynda Don Nelson.
 
Það var hins vegar ekki nóg fyrir þennan skapheita snilling sem hefur oftar komist í fréttir fyrir að bræða úr sér á vellinum eða utan hans. Er skemmst að minnast framgöngu hans í Detroit hér um árið þar sem hann fór upp í stúku til að lumbra á dólgslegum áhorfanda ásamt félaga sínum Ron Artest.
 
Jackson sagði í sumar að hann væri óánægður með hvert liðið væri að stefna, og lái honum hver sem vill, og að hann vlidi gjarnan fara til liðs sem væri að berjast um meistaratitil, NY Knicks eða "einhvers liðs í Texas" eins og hann orðaði það.
 
Hann verður eflaust kærkomin viðbót fyrir Larry Brown og hans menn í Charlotte því að þeir hafa átt í stökustu vandræðum með að koma boltanum í körfuna, nokkuð sem hefur aldrei vafist fyrir Jackson, þó hann noti oft helst til margar tilraunir til þess.
 
Hann skilur eftir sig lið í molum þar sem hver höndin er upp á móti annarri og ef ekki væri fyrir afar hæfileikaríka einstaklinga væri ekki nokkur von fyrir þá í næstu framtíð.
 
Er næsta víst að þeir fáu stuðningsmenn Golden State sem enn fylgjast með liðinu bíða í ofvæni eftir að allsherjar tiltekt verði gerð á skrifstofunni og að byrjað verði á Nelson og eigendum liðsins.

Ferill Stephen Jackson