Halldór Örn Halldórsson söðlaði um í sumar og hélt aftur í raðir Keflavíkur eftir viðveru hjá Breiðablik í Kópavogi. Halldór hefur enn ekki náð að láta að sér kveða með Keflavík þessa leiktíðina þar sem hann fór nýverið í speglun á annarri öxlinni.
,,Ég var meiddur megnið af síðasta tímabili en læknarnir fundu aldrei hvað var í rauninni að og svo gaf öxlin sig endanlega í fyrri leiknum gegn KR í úrslitakeppninni í fyrra,“ sagði Halldór í samtali við Karfan.is.
 
,,Ég reyndi svo að byrja að æfa í ágúst en þá gaf öxlin sig fljótlega aftur og þá var loksins eitthvað gert í þessu og ég var sendur í speglun og eitthvað hreinsað til,“ sagði Halldór sem stefnir að því að vera kominn í átökin með Keflavík í lok desember og spila svo fyrsta leikinn á nýju ári. Þá mætast einmitt Breiðablik og Keflavík í Smáranum.