Snæfellingar mættu í heimsókn til ÍR-inga í Kennaraháskólanum og byrjuðu af meiri krafti og voru fljótt komnir í 4-15 um miðjan fyrsta hluta og Hlynur var sterkur undir körfunni kominn með 5 fráköst eða þau flest sem í boði voru. Hittni Snæfellinga var góð á meðan heimamenn í ÍR voru ekki að setja niður skot sín. Vörn og sókn Snæfellinga var markvissari og leiddu gestirnir úr Hólminum 13-25 eftir fyrsta fjórðung þar sem Páll Fannar setti þrist undir lokin fyrir Snæfell en ÍR var aðeins að vakna.
ÍR setti svo fyrsu 5 stig annars hluta þar sem Eiríkur Önundar byrjaði á einum þrist til að vekja sína menn. Það tókst og ÍR áttu betri innkomu í öðrum fjórðung sem skilaði þeim betri mun en þeir komust nær Snæfelli 32-35 eftir að hafa unnið upp 10 stiga forskot Snæfells hægt og bítandi. Snæfell átti þó undir lokin síðasta orðið í fyrri hálfleik þegar Sean Burton setti sín fyrstu stig og leiddi 32-39.
 
Hjá ÍR voru menn nokkuð jafnir en Kristinn Jónasson var með 7 stig. Nemjana Sovic 6 stig og Gunnlaugur Elsuson 6 stig og 6 frák. Hjá Snæfelli var einnig jafnt um skor en fremstur var Emil Þór kominn með 11 stig. Hlynur Bærings með 9 stig og 9 frák. Pálmi Freyr og Jón Ólafur 5 stig hvor.
 
Leikurinn varð jafnari í upphafi þriðja hluta en þegar Snæfell hafði komið sér í 44-50 tóku þeir á enn meiri sprett og keyrðu algjörlega yfir heimamenn 10-0 á rétt rúmlega mínútu. Sean, Emil, Jón og Páll Fannar settu allir sinn þristinn hver og Emil og Jón voru allt í öllu í sóknarleiknum sem ÍR réði ekkert við. Snæfellingar voru svo komnir í 48-71 þegar þriðji hluti flautaði út og með ólikindum að ÍR henti öllu frá sér eftir að hafa komist svo nærrri og leikur þeirra virtist allur að hitna.
 
Hreggviður hafði haldið ÍR á floti framan af seinni hálfleik en Jón Ólafur var óstöðvandi hjá Snæfelli og var kominn með 24 stig um miðjann fjórða hluta og af þeim 19 í seinni hálfleik ásamt Sean og Emil Þór. ÍR átti erfitt með að henda púðri í að elta upp muninn sem Snæfell hafði en liðin voru samt jöfn að skori í lokahlutanum. Snæfell var komið 25 stigum yfir og leyfðu Ingi Þór og Jón Arnar ungum að spreyta sig sem stóðu sig með prýði en Snæfell hafði frekar auðveldann sigur 72-92 þar sem þeir tóku öll völd á velllinum í seini hálfleik.
 
Hjá ÍR Hreggviður með 18 stig og virkaði eini með lífsmarki í seinni hálfleik. Nemjana og Eiríkur hurfu sporlaust og voru með 9 stig hvor. Gunnlaugur og Steinar Arason enduðu með 8 stig hvor. Hjá Snæfelli er uppgangur og munaði mikið um innkomu Jóns Ólafs í glæstum sigri sem skoraði 24 stig og tók 7 frák. Emil Þór var gríðalega drjúgur fyrir sína menn og setti 18 stig. Sean Burton fór í gang í seinni hálfleik líkt og var með 15 stig og 8 stoðs. Hlynur átti varnarleikinn í kvöld og setti 14 stig, tók 14 fráköst.
 
 
Texti: Símon B. Hjaltalín.
Ljósmyndir: Tomasz Kolodziejski