Í kvöld lýkur sjöundu umferð í Iceland Express deild kvenna en hún hófst síðastliðinn sunnudag þar sem KR vann sinn sjöunda leik í röð er Valskonur mættu í DHL-Höllina. Í kvöld eru þrír leikir á dagskrá og hefjast þeir allir kl. 19:15.
Snæfell tekur á móti Hamri í Stykkishólmi en Hamar er í 2. sæti deildarinnar með fjóra sigurleiki og tvö töp. Snæfell er í 5.-7. sæti deildarinnar með Njarðvík og Keflavík en þessi þrjú lið hafa unnið tvo leiki og tapað fjórum.
 
Boðið verður upp á Suðurnesjaslag í Röstinni þegar Grindavík tekur á móti Njarðvík en þar mætir Ólöf Helga Pálsdóttir sínum fyrrum liðsfélögum en hún gekk í raðir Njarðvíkinga í sumar. Slíkt hið sama gerði Dagmar Traustadóttir er hún hélt frá Ljónagryfjunni í raðir Grindavíkur og er von á forvitnilegum slag í Grindavík.
 
Stórslagur verður að Ásvöllum þar sem Íslandsmesitarar Hauka taka á móti Keflavík en liðin hafa barist hart síðustu ár og verður engin undantekning þar á í kvöld þar sem bæði lið vilja vafalítið stig úr leik kvöldsins eftir dræma byrjun. Leikur Hauka og Keflavíkur verður í beinni netútsendingu hjá www.sporttv.is
 
Hægt er að tippa á viðureign Grindavíkur og Njarðvíkur og svo Hauka og Keflavíkur á Lengjunni, www.lengjan.is