Í kvöld fer af stað sjöunda umferðin í Iceland Express deild karla. Þrír leikir eru á dagskrá sem allir hefjast kl. 19:15 en þess má geta að Grindvíkingar sýna sjálfir í beinni netútsendingu frá viðureign sinni við Stjörnuna.
Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur tekið upp á því að sýna beint á netinu frá heimaleikjum liðsins og fylgja í fótsport KFÍ, KR og fleiri liða. Í gær sýndu þeir beint frá UMFG-Njarðvík í Iceland Express deild kvenna og gekk útsendingin mjög vel. Í kvöld verður svo sýnt beint frá Grindavík – Stjarnan í Iceland Express deild karla. Nú geta þeir sem ekki komast til Grindavíkur á leikinn fylgst með í beinni á www.umfg.is
 
Stjarnan vermir 2.-4. sæti ásamt Keflavík og KR en þessi þrjú lið hafa unnið fimm leiki og tapað einum. Grindavík er hinsvegar í 7. sæti deildarinnar með 3 sigurleiki og 3 tapleiki.
 
Tindastóll tekur á móti Keflavík á Sauðárkróki en Stólarnir urðu fyrstir til að leggja Stjörnuna í síðustu umferð og var það annar sigurleikur þeirra í röð í deildinni. Keflvíkingar eru sömuleiðis á siglingu og skelltu ÍR í síðasta deildarleik sínum og það án Rashon Clark sem var fjarverandi sökum meiðsla á fingri.
 
Þriðji og síðasti leikurinn í Iceland Express deild karla í kvöld er viðureign KR og Hamars í DHL-Höllinni í Vesturbænum. Stígandi hefur verið í liði Hamars sem tapaði með 11 stig mun gegn toppliði Njarðvíkur í síðustu umferð svo þeir fá enn einn toppleikinn þegar þeir mæta KR í Vesturbænum í kvöld.
 
Allir leikirnir í Iceland Express deild karla í kvöld eru á Lengjunni – www.lengjan.is
 
Þá fer einn leikur fram í drengjaflokki þegar Ármann tekur á móti Njarðvík í Kennaraháskólanum kl. 18:15.
 
Ljósmynd/ Dabney hefur verið heitur í liði Hamars undanfarið.