Eftir um hálftíma eða svo skríður af stað sjötta umferðin í Iceland Express deild karla með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Umferðinni lýkur svo annað kvöld en þá fara líka þrír leikir fram, í kvöld eru tveir af þremur leikjum í höfuðborginni og í Hveragerði taka heimamenn á móti Njarðvíkingum.
Njarðvík og Stjarnan eru einu taplausu lið deildarkeppninnar og bæði eiga þau leiki í kvöld. Njarðvíkingar fara eins og áður greinir í Hveragerði þar sem heimamenn hafa unnið þrjá af fimm leikjum sínum í deildinni. Stjarnan tekur á móti Tindastólsmönnum sem eru í 9. sæti með einn sigurleik.
 
Breiðablik tekur svo á móti Grindavík í Smáranum í Kópavogi en Blikar rétt eins og Tindastólsmenn hafa aðeins unnið einn leik í deildinni. Grindvíkingar lágu í síðasta heimaleik sínum gegn Hamri og í millitíðinni bættu þeir við sig Darrell Flake sem er Íslendingum að góðu kunnur og er búist við því að hann leiki með gulum í Smáranum í kvöld.
 
Þá eru það gleðitíðindi fyrir Garðbæinga þar sem miðherji þeirra Fannar Freyr Helgason er kominn í búning og byrjaður að hita upp í Ásgarði en hann hefur verið frá að undanförnu sökum meiðsla sem hann hlaut í Stykkishólmi í leik gegn Snæfellingum.
 
Leikir kvöldsins í IE deild karla:
Stjarnan-Tindastóll
Hamar-Njarðvík
Breiðablik-Grindavík
 
 
Ljósmynd/ nonni@karfan.is – Blikar taka á móti Grindvíkingum í Smáranum á eftir.