Uppgjör liðanna sem sitja í 2 efstu sætum IcelandExpress deildar kvenna fór fram í Hveragerði í kvöld þegar KR kíkti í heimsókn. Fyrir leikinn var KR í 1. sæti en Hamars-stúlkur fylgdu fast á eftir, einungis 2 stigum á eftir. ljóst var að þetta yrði mikilvægur sigur fyrir bæði lið hvernig sem færi.
 
 
KR-stúlkur byrjuðu betur heldur en heimastúlkur og setti Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir niður fyrsta þristinn og þar með fyrstu stig leiksins. Margrét Kara setti svo fljótlega niður annan þrist og þá var staðan orðin 2-6 fyrir gestunum. Fljótlega var staðan orðin 6-12 og útlitið ekki mjög bjart fyrir Hamar. Í lok 1. leikhluta var staðan 10-19 KR í vil.
 
KR-stúlkur héldu jafnt og þétt áfram að auka forskotið og þegar um 4 mínútur voru búnar af 2. leikhluta var staðan 14-26 fyrir gestunum og ljóst að Hamars-stúlkur þyrftu að bæta sinn leik verulega ef ekki ætti illa að fara. 9 stig skyldu liðin að þegar þau gengu til búningsherbergja í hálfleik 24-33.
 
Hamars-stúlkur byrjuðu seinni hálfleikinn af ágætiskrafti og minnkuðu muninn niður í 3 stig 32-35 en nær komust þær ekki og hrukku KR-stúlkurnar í gang aftur. Á þessum tímapunkti fengu Hamars-stúlkur heita stigasúpu í andlitið frá KR-ingum en þær skoruðu hvorki meira né minna en 10 stig í röð og staðan skyndilega orðin 32-45. Fyrir lokaleikhlutann voru það svo 12 stig sem skyldu á milli liðanna, 35-47.
 
Hamars-stúlkur reyndu að bíta í skjaldarendurnar á KR-ingunum í lokaleikhlutanum en komust ekki nær heldur en í stöðunni 45-49 og það var eins og þær væru búnar að gefa leikinn upp á bátinn. leiknum lauk með 12 stiga sigri KR, 50-62.
 
Hjá KR var það Margrét Kara Sturludóttir sem var atkvæðamest með 23 stig og 5 stolna bolta. Næst á eftir henni kom Hildur Sigurðardóttir með 15 stig og 6 stoðsendingar. Guðrún Gróa setti 9 stig, Helga Einarsdóttir 6 og Signý Hermannsdóttir 5 en hún var einnig með 15 fráköst.
 
Hjá Hamars-stúlkum var það Kristrún Sigurjónsdóttir sem var atkvæðamest með 19 stig. Næst á eftir henni kom Sigrún Ámundadóttir með 12 stig og 14 fráköst. Koren Schram gerði 9 stig. Fanney Guðmundsdóttir náði sér ekki á strik og endaði leikinn með 3 stig og þar af 0/7 nýtingu í þristum. Hafrún Hálfdánardóttir gerði 4 stig og 8 fráköst.
 
 
Pistill: Jakob F. Hansen
Myndir: Sævar Logi Ólafsson