Leikstjórnandinn Rajon Rondo hefur samið við Boston Celtics um fimm ára framlengingu á samningi sínum. Rondo mun fá um 55 milljónir dala á samningstímanum sem setur hann í hóp launahæstu ungu leikstjórnanda deildarinnar.
Rondo, sem var valinn í nýliðavalinu 2006, hefur komið á óvart með frammistöðu sinni og var frammistaða hans í úrslitakeppninni í fyrra með ólíkindum þar sem hann var næstum með þrennu að meðaltali.
 
Þrátt fyrir það voru forráðamenn Boston ekki að rjúka upp til handa og fóta til að semja við Rondo þrátt fyrir að hann ætti bara eftir eitt ár af samningi sínum. Hann hafði það orð á sér að vera erfiður í umgengni og gengur saga um að hann hafi reynt að koma hinum ungu leikmönnum liðsins upp á móti þrenningunni, Pierce, Garnett og Allen.
 
Umboðsmaður Rondo varð fyrir miklum vonbrigðum þegar fyrstu samningaumleitanir þeirra voru ekki að þróast í þá átt sem þeir hefðu viljað og lýsti því yfir að leikmaðurinn myndi láta reyna á leikmannamarkaðinn á komandi sumri.
 
Danny Ainge brást þá skjótt við og gekk að kröfum Rondo og hefur tryggt að hann mun sjá um að stýra leiknum fyrir stjörnum prýtt stórveldið næstu árin.