Pálína Gunnlaugsdóttir er komin í Keflavíkurbúninginn að nýju eftir barneign en henni og Stjörnumanninum Kjartani Atla Kjartanssyni fæddist stúlkubarn fyrir mánuði síðan. Pálína steig sín fyrstu skref í úrvalsdeildinni í gærkvöldi þegar Keflavík marði 67-68 sigur á Haukum að Ásvöllum. Karfan.is ræddi við Pálínu um endurkomuna en hún viðurkenndi að vera ekki komin í 100% form.
Pálína náði ekki að skora á þeim fimm mínútum sem hún lék í gær en kvað tilfinninguna góða. ,,Ég var alveg með hugann við leikinn en litla músin mín varð fjögurra vikna í gær þegar ég spilaði leikinn og svo var ég bara búin að mæta á fjórar æfingar fyrir þennan leik,“ sagði Pálína og bar sig vel að Ásvöllum.
 
Eins og fyrr segir fengu Pálína og Kjartan lita stelpu og var mamman alveg með á hreinu hvert leiðir hennar muni liggja: ,,Við fengum körfuboltastelpu sem verður þriggja stiga skytta og varnarjálkur,“ sagði Pálína í góðu gamni en gerðist svo öllu alvarlegri.
 
,,Skrokkurinn er alls ekki orðinn 100% og snerpan er farin, ég vona bara að þetta komi fljótt aftur,“ sagði Pálína sem áætlaði að vera komin af stað um áramótin en gat víst ekki á sér setið stundinni lengur.
 
,,Ég var orðin svolítið þreytt á því að hanga inni því þetta voru svo mikil viðbrigði að vera eins og fiðrildi alltaf úti og fara svo í það að þurfa að vera heima allan daginn svo ég ákvað bara að drífa í þessu,“ sagði landsliðskonan öfluga og horfir björt fram á veginn.
 
,,Nú eru þetta þrír sigurleikir í röð og nýji kaninn okkar er flottur, ég er mjög ánægð með þetta og bara bjartsýn á framhaldið,“ sagði Pálína og eflaust eru margir Keflvíkingar því fegnir að sjá Pálínu á ný í búning.
 
Ljósmynd/ Pálína hlustar af athygli í einu leikhléi Keflavíkur að Ásvöllum í gær.