Þórsarar unnu sinn fyrsta heimasigur í vetur þegar þeir lögðu Hrunamenn af velli, 91-74 í 1. deild karla í körfuknattleik. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og leiddu leikinn fyrstu mínúturnar. Undir lok fyrri hálfleiks náðu heimamenn góðri forystu og héldu henni út allan leikinn og fögnuðu því 17 stiga sigri, 91-74.
Hrunamenn byrjuðu leikinn þó betur en heimamenn. Sóknarleikur heimamanna var ögn stirrður og svo virtist vera að leikmenn Þórs biðu alltaf eftir því hvað Óðinn Ásgeirsson ætlaði sér að gera í sókninni. Sóknarleikur gestanna gekk sæmilega og náðu þeir því að leiða leikinn með tveimur stigum þegar 1. leikhluta lauk, 18-20. Heimamenn byrjuðu annan leikhluta mun betur en í þeim fyrsta leikhluta. Smá saman náðu heimamenn undirtökunum í leiknum og náðu að byggja upp góða forystu. Það var aðallega grimm vörn heimamanna sem skilaði þessum góða leikkafla og þar spilaði Sindri Davíðsson mjög góða vörn sem stöðvaði algjörlega bakvörð gestanna. Gestirnir voru í töluverðum vandræðum og heimamenn leiddu því leikinn í hálfleik með 12 stigum, 46-34.
 
Gestirnir komu brjálaðir til leiks í síðari hálfleik. Gestirnir ákvöðu að skipta úr maður á mann vörn yfir í svæðisvörn. Þessi breyting skilaði sér nokkuð vel og sóknarleikur heimamanna riðlaðist töluvert. Gestirnir náðu að minnka forskot gestanna örlítið og þegar leikhlutanum lauk leiddu heimamenn leikinn með 7 stigum, 57-50. Heimamenn mættu grimmir til leiks í fjórða leikhluta og ætluðu sér ekki að hleypa gestunum of nálægt sér. Páll Kristinsson byrjaði leikhlutann á að setja niður þrist og stuttu síðar setti Elvar Sigurjónsson þrjú stig niður. Á tímabili í fjórða leikhluta virtust Þórsarar hreinlega ætla að klára leikinn. Gestirnir neituðu þó að gefast upp og náðu að minnka munin á ný niður í sjö stig og allt opið. Þrátt fyrir mikla baráttu gestanna náðu Þórsarar að halda haus og náðu að auka forskotið á ný. Wesley Hsu innsiglaði síðan 17 stiga sigur er hann setti niður þrist um leið og flautan gall. 17 stiga sigur staðreynd, 91-74 sem og fyrsti heimasigurinn í höfn.
 
Stigaskor Þórsara: Wesley Hsu 24 stig, Elvar Þór Sigurjónsson 18, Óðinn Ásgeirsson 18, Páll Kristinsson 10, Bjarki Oddsson 9, Bjarni K. Árnason 4, Björn Benediktsson 2, Baldur Stefánsson 2, Sigmundur Eiríksson 2 og Sindri Davíðsson 2
 
Stigaskor Hrunamanna: Hjálmur Hjálmsson 18, Máté Dalmay 17, Sigurður Sigurjónsson 12, Atli Örn Gunnarsson 10, Bragi Gunnarsson 7, Bogi Eiríksson 4, Haukur Hilmarsson 3 og Andri Bergsson 3
 
 
Sölmundur Karl Pálsson
 
Mynd: Rúnar Haukur Ingimarsson – meira á www.runing.com/karfan