ÍR fór með öruggan sigur af hólmi þegar þeir mættu Haukum í Subwaybikarkeppni karla en fyrir fram voru þeir taldir öryggir áfram. Leikurinn sem fór fram á Ásvöllum byrjaði af krafti og var ljóst að Haukar ætluðu að selja sig dýrt.
ÍR byrjaði af krafti og skoraði fyrstu fimm stig leiksins. Haukar smelltu þá vörninni í gang og komust yfir 6-5. Liðin héldu áfram að skiptast á körfum og var Ólafur Þórisson mjög djúgur fyrir lið ÍR en hann gerði níu af fyrstu þrettán stigum þeirra. Haukar leiddu eftir leikhlutann 20-18 og var það trú stuðningsmanna Hauka að þeirra menn myndu gera ÍR lífið leitt það sem eftir lifði leiks.
 
Sú varð ekki rauninn. Haukar héldu í við ÍR-inga framan af en um miðbik leikhlutans settu ÍR-ingar í fluggír og gjörsamlega yfirspilaði Haukaliðið.Fljótt voru bláir komnir með væna forystu eða 15 stig og rétt fyrir lok fyrri hálfleiks leiddu ÍR-ingar með sautján stigum. Þriggjastiga karfa frá Sveini Ómari Sveinssyni nánast um leið og leikhlutanum lauk gerði það að verkum að ÍR leiddi aðeins með 14 stigum í hálfleik, 35-49.
 
ÍR skoraði fyrstu sjö stig seinni hálfleiks og voru nú komnir með 21 stiga forystu. Þessa forystu létu þeir aldrei af hendi og mega Haukar eiga það að þeir börðust ágætlega fyrir því að munurinn yrði ekki meiri. Nokkrum sinnum í seinni hálfleik náðu þeir að minnka muninn og náðu mest að minnka hann niður í 15 stig. ÍR leiddi mest með 26 stigum í seinni síðasta fjórðung og leikurinn endaði með 24 stiga sigri ÍR, 70-94. Bikardraumur Haukar er þar með úr sögunni en ÍR-ingar halda brattir áfram í 16 liða úrslit.
 
Nemanja Sovic sýndi hversu öflugur hann er og lét lítið fara fyrir þeim 19 stigum sem hann skoraði. Hann var stigahæstur ÍR en hann tók einnig 6 fráköst. Næstur Sovic var Hreggviður Magnússon með 12 stig og 7 fráköst.
 
Hjá Haukum var Sævar Ingi Haraldsson stigahæstur með 14 stig og 6 fráköst og næstir honum voru Sveinn Ómar Sveinsson, Elvar Steinn Traustason og Helgi Björn Einarsson með 11 stig hver.

Tölfræði leiksins

Myndasafn úr leiknum

 
emil@karfan.is
 
Mynd: stebbi@karfan.is