Snæfell og Valur mættust í kvöld í Fjárhúsinu í Stykkishólmi. Fyrir þennan leik voru liðin jöfn að stigum í botnsætum deildarinnar með 4 stig hvort og því til mikils að vinna. Valskonur léku án erlends leikmanns en þær létu bandaríska bakvörðinn Sakera Young fara frá félaginu fyrir leikinn.
Hanna Hálfdánardóttir skoraði fyrstu körfu kvöldsins fyrir Valskonur en Kristen Green svaraði að bragði með þriggja stiga körfu fyrir Snæfellskonur. Birna Eiríksdóttir svaraði fyrir Valskonur með þrist áður en Unnur Ásgeirsdóttir jafnaði leikinn í 5-5 með góðu skoti.
 
Snæfell hóf leikinn með pressuvörn og virtust Valskonur eiga í erfiðleikum með að leysa fram úr því. Hittni beggja liða var ekki upp á sitt besta og var staðan 13-13 þegar Valskonur tóku leikhlé þegar 2 mínútur og 13 sekúndur voru eftir af fyrsta leikhluta. Þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta var staðan 15-13 fyrir heimakonur. Kristen Green var komin með 5 stig og 6 fráköst fyrir Snæfellinga en Hanna Hálfdánardóttir með 6 stig fyrir gestina.
 
Snæfellingar hóf annan leikhluta af gríðarlegum krafti og skoruðu fyrstu 9 stig leikhlutans og komust í 24-15. Snæfellingar pressuðu hátt og áttu Valskonur í erfiðleikum með baráttuglaða Breiðfirðinga.
Valur skoraði sín fyrstu stig á sjöttu mínútu leikhlutans og breyttu stöðunni í 24-17. Þær bættu svo annarri körfu við en þá settu Snæfellskonur í gírinn aftur og skorðu 7 stig í röð og staðan var 31-19 þegar Valskonur tóku leikhlé þegar 3 mínútur 50 sekúndur voru eftir af leikhlutanum.
 
Staðan í hálfleik var 34-21 fyrir Snæfell. Stigahæstar í hálfleik í liði Snæfells voru Kristen Green með 17 stig en Unnur Ásgeirsdóttir var með 7 stig. Í liði Vals var Hanna Hálfdánardóttir með 8 stig og Birna Eiríksdóttir með 7 stig.
 
Valskonur skoruðu fyrstu körfu þriðja leikhluta en Snæfellskonur svöruðu að bragði. Snæfellskonur héldu uppteknum hætti í þriðja leikhluta og pressuðu stíft. Valskonur áttu fá svör við pressuvörninni og voru oft neyddar í erfið skot og fráköstin féllu flest hver í hendur Snæfellinga. Snæfellingar sigu hægt og bítandi fram úr og um miðbik hálfleiksins voru þær komnar með 15 stiga forskot 43-28 og þetta forskot juku þær og staðan í lok þriðja leikhluta var 55-36 Snæfellskonum í vil. Ljóst var á þessum tímapunkti að Valskonur þyrftu að snúa vörn í sókn ef þær ætluðu sér að ná einhverju úr leiknum.
 
Fjórði leikhluti hófst eins og sá þriðji endaði og sigu Snæfellingar enn lengra fram úr og náðu fljótlega 20 stiga forskoti. Hittni þeirra var góð og grimmur varnarleikur gerði Valskonum erfitt fyrir. Hrafnhildur Sævarsdóttir fór út af með 5 villur þegar 3 mín. 30 sek. lifðu af leiknum og staðan var 65-50. Valskonur höfðu þá aðeins verið að saxa á forskot Snæfellinga en náðu í raun aldrei að hleypa spennu í leikinn. Svo fór að Snæfell hafði sigur 73-52.
 
Stigahæst í liði Snæfells var að venju Kirsten Green með 21 stig auk þess sem hún tók 12 fráköst. Gunnhildur Gunnarsdóttir kom næst á eftir með 12 stig. Í liði Valskvenna skoraði Birna Eiríksdóttir 16 stig og Hanna Hálfdánardóttir skoraði 10 stig auk þess að taka 7 fráköst.
 
 
Texti og myndir: Þorsteinn Eyþórsson