Íslandsmeistarar KR, með Ólaf Má Ægisson í broddi fylkingar, sýndu í kvöld af sér magnað baráttuþrek er þeir lögðu nýliða Hamars 91-88 í Iceland Express deild karla. KR komst yfir 5-4 í byrjun leiks en eftir það leiddu gestirnir uns 23 sekúndur voru eftir, þá komust KR-ingar yfir að nýju og hreinlega stálu sigrinum. Marvin Valdimarsson og Andre Dabney gerðu báðir 27 stig í liði Hamars en Semaj Inge gerði 27 stig fyrir KR. Ólafur Már Ægisson kveikti í heimamönnum í fjórða leikhluta en hann gerði 14 stig í kvöld.
Oddur Ólafsson átti glimrandi leik í liði Hamars en hann er ungur og efnilegur leikmaður sem fékk svo sannarlega að kenna á pressunni í kvöld. Oddur fór á línuna þegar 8 sekúndur voru til leiksloka og gat hann komið Hamar einu stigi yfir. Oddur brenndi af báðum skotunum og KR-ingar héldu rétt á spilunum síðustu 8 sekúndur leiksins og lönduðu sigri.
 
Hamarsmenn hófu leikinn í svæðisvörn og héldu sig við þann varnarháttinn allt til leiksloka. Snemma varð ljóst að KR kunni illa við þessa vel skipulögðu vörn gestanna enda var hittni heimamanna með lakasta móti.
 
KR komst í 5-2 en þá gerðu gestirnir 8 stig í röð og leiddu svo 10-16 eftir fyrsta leikhluta sem var nokkuð tilþrifalítill. Í öðrum leikhluta fór Marvin Valdimarsson að ranka við sér í liði Hamars og með fimm stigum í röð frá honum komst Hamar í 18-25 en Marvin átti eftir að láta rækilega til sín taka í leiknum.
 
Vörn Hamars reyndist KR ofviða í fyrri hálfleik og gerðu heimamenn aðeins 26 stig í fyrri hálfleik þar sem þeir tóku 17 þriggja stiga skot og hittu aðeins úr tveimur þeirra.
 
Svavar Páll Pálsson fékk snemma í þriðja leikhluta sína fjórðu villu í liði Hamars og fékk hvíld á bekknum. Fjarvera Svavars fékk ekki mikið á Hamarsmenn og allt benti til þess að KR-ingar hefðu ekki rætt málin í hálfleik heldur setið og nagað hamborgara í samkomsalnum í DHL-Höllinn. Slík var spilamennska þeirra gegn einbeittum Hamarsmönnum.
 
Í þriðja leikhluta tókst KR að nálgast Hamar en þá gáfu gestirnir í að nýju með þá Marvin og Dabney í fararbroddi og þá var Oddur Ólafsson einnig beittur og með þriggja stiga körfu kom hann Hamri í 50-63 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta.
 
KR virtist ekki eiga nein svör og snemma í fjórða leikhluta var munurinn kominn upp í 18 stig, 56-74 eftir þriggja stiga körfu frá Marvin Valdimarssyni. Þegar hér er komið við sögu ákvað Ólafur Már Ægisson að taka til sinna ráða fyrir KR og sallaði niður tveimur þriggja stiga körfum með stuttu milli bili og staðan orðin 64-74.
 
Heimamenn hertu róðurinn og fljótt fóru fleiri að fylgja í fótspor Ólafs. Tvær þriggja stiga körfur frá Inge og svo Ólafi minnkuðu muninn í 83-85 þegar 1.41mín. var til leiksloka. Tommy Johnson sem hafði vart sést síðan í fyrri hálfleik vaknaði við lætin í Ólafi og setti niður þrist og minnkaði muninn í 86-87.
 
Þegar 23 sekúndur voru til leiksloka braut Dabney á Inge sem fór á línuna en hér voru bæði lið komin með skotrétt. Inge setti bæði vítin niður og KR komst yfir 89-88 í fyrsta sinn síðan í stöðunni 5-4.
 
Hamarsmenn fóru í næstu sókn þar sem brotið var á Oddi þegar 8 sekúndur voru til leiksloka. Dýr lexía fyrir ungan leikmann að taka svona víti á ögurstundu og brenna af þeim báðum en maður getur rétt ímyndað sér að leikmaðurinn verði með nánast óaðfinnanlega vítanýtingu það sem eftir lifir vetrar.
 
Restin af leiknum er þekkt stærð og Íslandsmeistarar KR sýndu af sér mikla seiglu og þolinmæði með því að stela stigunum af Hamri. Eftir leikinn í kvöld hefur KR unnið sex deildarleiki og tapað einum en Hamarsmenn hafa unnið þrjá og tapað fjórum. Keflavík og KR eru því áfram saman í 2.-3. sæti deildarinnar en Hamar er í 7. sæti.
 
Stigahæstu leikmenn Hamars:
Andre Dabney 27 stig, 8 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolnir boltar
Marvin Valdimarsson 27 stig, 2 fráköst, 2 stoðsendingar
Oddur Ólafsosn 10 stig, 3 stolnir boltar, 3 stoðsendingar, 2 fráköst
 
Stigahæstu leikmenn KR:
Semaj Inge 27 stig, 6 stoðsendingar, 4 fráköst, 3 stolnir boltar
Tommy Johnson 18 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar
Ólafur Már Ægisson 14 stig, 3 stoðsendingar, 2 fráköst og 2 stolnir boltar