Sem fyrr segir voru það Njarðvíkingar sem sigruðu Íslandsmeistara KR í gærkvöldi 76-68. 8 stiga sigur sem skilar Njarðvíkingum í fyrsta sæti deildarinnar með Stjörnumenn sér við hlið. KR-ingar mættu hinsvegar sterkir til leiks í gær og seldu sig dýrt. 
 Framan af leik þá var skorað grimmt á báða bóga og bæði lið sem hafa greinilega lagt mikið uppúr varnarleik sínum framan af móti voru að sýna fína takta hinumegin á vellinum. Guðmundur Jónsson sá um að skora fyrstu 7 stig Njarðvíkinga og var funheitur í fyrri hálfleik strax þá komin með 15 stig. Allt stefndi einnig í að Tommy Johnson myndi enda leikinn í 30 stigum eftir að hafa sett þrjá þrista á fyrstu mínútum leiksins. 
 
Staðan var hníf jöfn allt þar til í seinni hálfleik þegar KR náðu góðu áhlaupi og komust í 10 stiga forskot. Vörn þeirra var nánast loftþétt og að sama skapi var sóknarleikur heimamanna líkt og hjá byrjendum þar sem þeir náðu varla skot að körfunni. 
 
Heimamenn voru samt ekki af baki dottnir og snéru dæminu við. Jóhann Árni Ólafsson sem fram að fjórða leikhluta hafði haft hægt um sig setti niður 14 stig fyrir þá grænklæddu í síðasta fjórðung og áttu KR-ingar engin svör við stórleik kappans.  Hjá KR var hin eldsnöggi Semaj Inge þeirra besti leikmaður.  Fínn forleikur fyrir bikarleik þessara tveggja liða á föstudag sem háður verður í Ljónagryfjunni. 
 
Viðtöl (Karfan TV) og myndasafn eru komin á síðuna. 
 
SbS