Snæfell varð seinasta liðið til að tryggja sér sæti í 16 liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik þegar liðið vann Álftanes 49-122 í Forsetahöllinni á Álftanesi á mánudagskvöld. Yfirvaraskeggið sem leikmenn heimaliðsins höfðu safnað fyrir leikinn skipti litlu máli þegar á hólminn var komið.
 
Álftnesingar, sem leika í 2. deild, héngu í úrvalsdeildarliðinu fyrstu mínútuna en jafnt var 4-4. Gestirnir tóku þá á rás og komust í 9-28 fyrir áður en fyrsta fjórðungi lauk. Snæfellingar byrjuðu inn á með sitt sterkasta lið en þegar þeir voru komnir með tök á leiknum var því skipt út af fyrir óreyndari leikmenn. Snæfellingar léku án Sigurðar Þorvaldssonar sem glímir við bólgur undir hnéskel. Bandaríkjamaðurinn Sean Burton lék sinn fyrsta leik fyrir félagið en hann kom til landsins um helgina. Þróunin í öðrum leikhluta var svipuð, gestirnir leiddu í hálfleik 22-59.
 
Byrjunarlið Snæfells kom aftur inn á í upphafi þriðja leikhluta, eins og til að gera endanlega út af við leikinn. Tvær troðslur Sveins Arnars undirstrikuðu það. Eftir fimm mínútur í leikhlutanum skiptu Snæfellingar um alla leikmenn sína. Gæðamunurinn var mikill. Álftnesingar komust lítt áleiðis gegn vörn Snæfellinga og flestar körfur þeirra komu úr skotum utarlega í teignum. Snæfellingar juku bilið jafnt og þétt og skoruðu seinustu stig leiksins með þriggja stiga flautukörfu.
 
Fullt var á áhorfendapöllunum í Forsetahöllinni. Forsetahjónin létu samt ekki sjá sig en þeim Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff var í upphafi tímabils boðið að mæta á leiki Álftanessliðsins.
 
Gísli Sigurðarson, fyrirliði Álftanessliðisins, var ekki sáttur við leik sinn né samherja sinna. „Við mættum klárlega ofjörlum okkar. Við áttum samt ekki okkar besta leik, spiluðum kerfin illa, vorum seinir til baka og þeir keyrðu yfir okkur. Við hefðum samt átt að gera betur en tapa með 73 stigum.“
 
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Snæfells, var sáttur við leikinn. „Við vissum að það væri getumunur á liðunum en við vildum keyra á fullu. Það var einna leiðin til að við og þeir fengjum eitthvað út úr leiknum. Ég er ánægður með að við náðum að halda einbeitingunni.“
 
Hann hreifst af yfirvaraskeggjum heimamanna. „Það er alltaf gaman að mönnum með góða og glæsilega mottu. Ég hefði getað skákað þeim flestum hefðum við vitað af þessu. Við verðum að vinna mottukeppnina seinna.“
 
Jón Ólafur Jónsson varð stigahæstur í liði Snæfellinnga með 25 stig en þrír aðrir leikmenn liðsins skoruðu tuttugu stig eða meira. Sigurbjörn Ottó Björnsson skoraði 15 stig fyrir Álftnesinga.
 
 
Gunnar Gunnarsson