Áttunda umferðin í Iceland Express deild karla hófst í gærkvöldi þar sem Keflavík, Fjölnir og ÍR nældu sér öll í tvö stig. Umferðinni lýkur í kvöld með þremur leikjum og verður toppslagur þegar Stjarnan tekur á móti taplausu liði Njarðvíkinga í Ásgarði í Garðabæ. Allir leikir Iceland Express deildar karla hefjast kl. 19:15 í kvöld.
Stjörnumenn hafa tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum, gegn Tindastól og Grindavík, en Njarðvíkingar eru eina ósigraða lið deildarinnar. Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar mun væntanlega gera hvað hann getur fyrir Garðbæinga til þess að binda enda á taphrynuna en hann gerði garðinn frægann með Njarðvíkingum hér í eina tíð og því líklegur til að tjalda öllu til í Ásgarði í kvöld. Njarðvíkingar eru hinsvegar fyrnasterkir og halda áfram að vekja mikla athygli sem eina kanalausa lið deildarinnar.
 
Breiðablik fær Íslandsmeistara KR í heimsókn en KR-ingar sýndu mikinn viljastyrk í síðustu umferð er þeir lögðu Hamar. Hvergerðingar höfðu leitt allan leikinn og voru á kafla í fjórða leikhluta með um 20 stiga forskot sem KR-ingar náðu að jafna og loks stela sigrinum. Blikar hafa hinsvegar aðeins unnið einn deildarleik og hafa tapað síðustu fjórum leikjum í röð. Nokkrar hræringar hafa verið á málefnum erlendra leikmanna í Kópavogi og verður fróðlegt að sjá hvernig liðið mun bregðast við nýjum leikmönnum.
 
Snæfell tekur svo á móti Tindastól í Stykkishólmi en Hólmarar hafa unnið síðustu þrjá deildarleiki á meðan Stólarnir hafa verið að sýna nokkur batamerki með t.d. sterkum útisigri gegn Stjörnunni á dögunum.
 
Einn leikur er í 1. deild kvenna en þá taka Laugdælir á móti Grindavík b kl. 20:30 á Laugarvatni.