Níundu umferð Iceland Express deildar karla lýkur í kvöld með þremur leikjum og er óhætt að segja að stórleikir séu í boði. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15 en viðureign Njarðvíkur og Keflavíkur verður í beinni á www.sporttv.is og leikur KR og Stjörnunnar verður í beinni á KR-TV.
Grannarimmur Njarðvíkur og Keflavíkur eru fyrir margt löngu orðnar þjóðsögur út af fyrir sig og nú þegar bæði lið eru á toppnum er von á miklum barningi. Njarðvíkingar töpuðu síðasta deildarleik gegn Stjörnunni í Garðabæ og var það fyrsti ósigur þeirra á tímabilinu en Keflvíkingar unnu Grindavík í síðustu umferð. Reyndar er það athyglisvert að bæði lið hafa tapað einum og leik og bæði hafa tapað gegn Stjörnunni þar sem Teitur Örlygsson situr við stjórnartaumana en hann spilaði sjálfur þá ófáa grannaslagina með Njarðvík gegn Keflavík. Það lið sem vinnur í kvöld kemst á topp deildarinnar, annað hvort eitt á toppinn eða með KR ef þeir vinna Stjörnuna í DHL-Höllinni.
 
Bikarmeistarar Stjörnunnar heimsækja Íslandsmeistara KR í DHL-Höllina í kvöld en Stjarnan náði að binda enda á þriggja leikja taphrynu sína með sigri á Njarðvík í síðustu umferð og KR lagði Blika örugglega í Smáranum í síðustu umerð. KR er í 1.-3. sæti deildarinnar ásamt Njarðvík og Keflavík en Stjarnan kemur þar strax á eftir í 4. sæti en toppliðin hafa tapað einum deildarleik en Stjarnan tveimur. Með sigri í kvöld getur Stjarnan jafnað KR að stigum.
 
Blikar þurfa nauðsynlega á sigri að halda í kvöld en þeir liggja við botn deildarinnar með aðeins tvö stig. Hamarsmenn taka á móti þeim í Hveragerði í kvöld en Hamar hefur tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum gegn Fjölni og KR.
 
Fjölmennum á vellina í kvöld!