Þrír leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld en þeir marka lok sjöttu umferðar. Allir hefjast þeir kl. 19:15. Í gærkvöldi tryggðu Njarðvíkingar sig eina á toppinni með sigri á Hamri í Hveragerði en Stjarnan tapaði sínum fyrsta leik er þeir lágu í Ásgarði gegn Tindastól.
Í kvöld mætast Keflavík og ÍR í Toyota-Höllinni í Reykjanesbæ og verður leikurinn í beinni netútsendingu hjá www.sporttvi.is Keflvíkingar eru í 3.-4. sæti deildarinnar eins og KR með fjóra sigurleiki og einn tapleik en ÍR situr í 8. sæti deildarinnar með tvo sigra og þrjá tapleiki.
 
Þá tekur Snæfell á móti fáliðuðum FSu-mönnum í Stykkishólmi en FSu vermir botn deilarinnar ásamt Fjölnismönnum, bæði lið án stiga. Snæfell hefur 6 stig í 5. sæti deildarinnar.
 
Botnlið Fjölnis tekur á móti KR í Grafarvogi en KR-ingar töpuðu nýverið sínum fyrsta deildarleik og eru í 3.-4. sæti deildarinnar ásamt Keflvíkingum.
 
 
Það er reyndar nóg um að vera í körfunni í kvöld því tveir leikir fara fram í 1. deild karla. Suðurlandsslagur verður þegar Þór Þorlákshöfn tekur á móti Hrunamönnum kl. 19:15 og svo kl. 21:00 mætast Ármann og Þór Akureyri í Laugardalshöll.
 
Einn leikur er í 2. deild karla þegar ÍBV tekur á móti Heklu í Vestmannaeyjum kl. 19:00. Þá fara fram tveir leikir í bikarkeppni yngri flokka en yfirlit yfir leiki dagsins má nálgast  hér.
 
 
 
Ljósmynd/Gunnar Einarsson og félagar í Keflavík verða í beinni á SportTV þegar þeir taka á móti ÍR í kvöld.