Í gærdag var Röstin í Grindavík í sviðsljósinu þegar gula lögðu Keflavík í Iceland Express deild kvenna. Það er skammt stórra högga á milli því í Grindavík í dag mætast heimamenn og Snæfell kl. 19:15 í Iceland Express deild karla.
Níundu umferð í Iceland Express deild kvenna lýkur í dag þegar Haukar og KR mætast að Ásvöllum kl. 19:15. Haukar eru í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en KR er á toppnum og hafa unnið alla átta deildarleiki sína til þessa.
 
Níunda umferðin í Iceland Express deild karla hefst líka í kvöld og eins og áður segir verður stórslagur í Röstinni í Grindavík þegar Snæfell mætir í heimsókn. Snæfell er í 4.-5. sæti deildarinnar með Stjörnunni en bæði lið hafa 12 stig. Grindvíkingar eru í 6. sæti með 8 stig.
 
Tindastóll fær botnlið FSu í heimsókn á Sauðárkrók og ÍR tekur á móti Fjölni í Kennaraháskólanum. Fjölnismenn eru vaknaðir eftir brösugt upphaf í deildinni en nýliðarnir frá Grafarvogi hafa unnið tvo síðustu deildarleiki sína, gegn FSu og Hamri. ÍR er í 7. sæti deildarinnar með 6 stig.
 
Nánara yfirlit yfir leiki dagsins má sjá hér en fjöldi fjölliðamóta fer fram í dag.