New Jersey Nets hafa sagt þjálfara sínum Lawrence Frank upp stöfrum eftir hrikalega byrjun á tímabilinu þar sem þeir hafa tapað fyrstu 16 leikjunum og mæta sjóðheitu meistaraliði Lakers í kvöld. Aðstoðarmaður hans Tom Barrise hefur tekið við taumunum tímabundið en óljóst er hvenær varanlegur arftaki verður ráðinn.
 
Það er greinilegt að forráðamenn Nets hafa ákveðið að nú væri komið nóg. Þó að Frank hafi lengi verið í náðinni hjá þeim, og ljóst var að tímabilið yrði erfitt þar sem búið var að hreinsa nær alla hæfileika úr liðinu til að rýma fyrir feitu bitunum á leikmannamarkaðnum næsta sumar, er allur andi farinn úr liðinu.
 
Frank svífur því úr starfi á eins lágum nótum og hann hóf störf. Hann tók við liðinu af Byron Scott í upphafi árs 2004 og vann sína fyrstu 13 leiki. Hann var með gott lið í höndunum þar sem Jason Kidd, Richard Jefferson og Vince Carter voru einhvað besta þríeyki deildarinnar. Eftir nær sex ár þar sem hann var lífseigasti núverandi þjálfarinn í Austurdeildinni og sigursælasti þjálfari í NBA-sögu Nets voru þeir hins vegar allir á braut og lítið komið í staðinn fyrir utan Devin Harris sem hefur verið meiddur í vetur.
 
Fari þeir ekki að girða sig í brók í næstu tveimur leikjum munu þeir eiga þann vafasama heiður að hafa tapað flestum leikjum í röð í upphafi tímabils, en fyrri metin eru frá 1988 þegar Miami Heat tapaði fyrstu 17 leikjunum á sínu fyrsta tímabili í NBA og hið sífellt ömurlega lið LA Clippers lék sama leikinn árið 1999.
 
Nets hafa verið í mikilli óvissu undanfarin misseri þar sem eigendur liðsins hafa leynt og ljóst stefnt að því að færa sig yfir í næsta bæ, inn í nýbyggingu í Brooklyn og þá á eftir að afgreiða yfirvofandi kaup rússneska auðjöfursins Mikhail Prokhorov sem hefur heitið því að færa NJ Nets aftur á stall toppliða í Austrinu.