Höttur frá Egilsstöðum heimsótti Laugdæli í Subway-bikarnum á föstudagskvöl. Leikurinn byrjað rólega og liðin skiptust á að skora fyrstu mínúturnar en Höttur leiddi mestan hluta fyrsta leikhluta og sundurspiluðu þeir vörn Laugdæla hvað á eftir annað. Staðan var 15 – 23 eftir fyrsta leikhluta. Laugdælir héldu alltaf í við Hattar menn og góður leikur Jóns Hrafns Baldvinssonar hélt þeim inn í leiknum.

 

Mikið fór fyrir Kevin Jolley í fyrri hálfleik og kórónaði hann stjörnuleik sinn með því að troða all svakalega í körfu Laugdæla og þurfti að gera hlé á leiknum til að laga körfuna. Skoraði drengurinn 21 stig í fyrri hálfleik og leiddu þeir í hálfleik 31 – 42. Jón Hrafn var líflegastur Laugdæla með 22 stig.

Seinni hálfleikur byrjaði hægt og Hattar menn náðu fljótlega 15 stiga forskoti í miðjan 3. leikhluta. Lykilmenn Laugdæla voru komnir í villuvandræði en góður leikur Laugdæla í enda leikhlutans kom þeim aftur inn í leikinn, einkum var það innkomu Kristinns Ólafssonar að þakka.
 
Leikurinn var í járnum allan fjórða leikhluta og var öflugur varnarleikur í fyrirrúmi hjá báðum liðum. Laugdælir lokuðu vel á Kevin Jolley sem skoraði einungis 7 stig í seinni hálfleik en misstu 4 leikmenn úr byrjunarliði sínu með 5 villur. En maður kemur í manns stað og komu leikmenn sterkir inn af bekknum í enda leiksins. Náðu Laugdælir að jafna leikinn í 73 – 73 þegar 2 mínútur voru eftir og skoruðu síðustu 7 stigin í leiknum undir handleiðslu Bjarna Bjarnasonar, sem spilaði glimrandi vel í fjórða leikhluta.
 
Bestu menn vallarins voru Jón Hrafn Baldvinsson hjá Laugdælum með 29 stig og 6 fráköst en Kevin Jolley fór fyrir Hattarmönnum með 28 stig. Bjarni Bjarnason var drjúgur í 4 leikhluta og kom Kristinn Ólafsson sterkur inn af bekknum. Einnig setti Jens Guðmundsson mikilvægar 3 stiga körfur í enda leiksins.
 
Góður sigur 80-73 hjá spræku liði Laugdæla var staðreynd og verður gaman að fylgjast með þeim það sem eftir líður vetrar.
 
Kári Jónsson
 
Mynd: Gunnar Gunnarsson – Kevin Jolley skemmdi körfuna á Laugarvatni