Það virðist fátt ætla að stöðva KR stúlkur á þessari leiktíð en þær sýndu mátt sinn og meginn þegar þær heimsóttu ríkjandi Íslandsmeistara Hauka á Ásvelli í kvöld. KR átti ekki í miklu basli með Hauka sem þær unnu með 19 stigum, 62-81 og um tíma munaði 32 stigum á liðunum.
Haukar léku án miðherjanna Telmu Fjalarsdóttur og Söru Pálmadóttur, sem eru meiddar, og gaf það því hávöxnu liði KR nokkuð lausan tauminn í teig Hauka. Gestirnir úr vesturbænum keyrðu strax upp muninn í fyrsta leikhluta og leiddu eftir hann með 14 stigum 9-23.

Haukar rönkuðu aðeins við sér í öðrum leikhluta og streyttust á móti en þrátt fyrir það sigraði KR hann með fimm stigum og leiddi með 19 stigum í hálfleik, 23-42.

Haukar áttu í miklu basli með að brjótast í gegnum vörn KR-inga og voru um miðjan leikhlutan búnar að skora fjórum stigum meira en KR gerði í fyrsta leikhluta. Með smá baráttu náðu þær að minnka muninn örlítið en KR hafði keyrt hann upp og var á þessum tíma 32 stigum yfir. Þegar þriðja leikluta lauk voru KR stúlkur 28 stigum yfir, 36-64 og virtist allt stefna í risasigur KR.

Haukaliðið vaknaði af værum blundi í fjórða leikhluta og náði að saxa á forskot KR með annars ágætri vörn. Jafnt og þétt minnkuðu þær muninn og náðu mest að minnka hann niður í 16 stig um miðjan fjórða leikhluta. KR landaði á endanum 19 stiga sigri, 62-81 og sitja sem fyrr einar á toppi deildarinnar með alla sína leiki sigraða.

Hjá KR fór Margrét Kara Sturludóttir mikinn og skoraði 34 stig og tók 7 fráköst. Henni næst var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 15 stig. Það lýsir breidd KR liðsins mikið að landsliðsmennirnir Signý Hermannsdóttir og Hildur Sigurðardóttir hafa oft verið meira áberandi en Hildur komst ekki á blað og Signý gerði 8 stig og tók 9 fráköst.

Hjá Haukum var það, líkt og alltaf, Heather Ezell sem var stigahæst en hún gerði 23 og stal 5 boltum og næst henni var Ragna Margrét Brynjarsóttir með 12 stig og 13 fráköst. Hin unga og efnilega Margrét Rósa Hálfdanardóttir átti fínan sprett í fjórða leikhluta þar sem hú gerði öll sín 8 stig og er ljóst að þarna er mikið efni á ferð.

emil@karfan.is