Topplið KR vann sinn áttunda deildarsigur í röð er þær tóku á móti Njarðvík í Iceland Express deild kvenna. Nýliðar Njarðvíkur gerðu vel í að halda við KR í fyrri hálfleik en í þeim síðari þurftu KR-ingar aðeins þriðja leikhluta til að gera út um málin. Lokatölur leiksins voru 82-58 KR í vil þar sem Unnur Tara Jónsdóttir átti prýðisgóðan leik með 18 stig fyrir KR. Chantrell Moss var langatkvæðamest í liði UMFN með 33 stig.
Miðherji þeirra Njarðvíkinga, Helga Jónasdóttir, var eldsnögg að næla sér í tvær villur en það gerði hún þegar aðeins tvær og hálf mínúta voru liðnar af leiknum. Liðin voru bæði róleg í stigaskorinu og þegar leikhlutinn var um það bil hálfnaður leiddu KR konur 7-3. Nokkuð lifnaði yfir báðum liðum á lokaspretti fyrsta leikhluta þegar Njarðvíkingar settu niður nokkra þrista. KR var engu að síður við stjórnartaumana og leiddu 22-19.
 
Eftir líflegan endasprett í fyrsta leikhluta var eins og snöggkólnað hefði í báðum liðum í upphafi annars leikhluta. Signý Hermannsdóttir braut þó ísinn fyrir KR með stökkskoti í teignum og kom KR í 24-19 eftir tæplega þriggja mínútna leik.
 
Njarðvíkingar beittu svæðisvörn í öðrum leikhluta og virkaði hún svona þolanlega en stóru leikmenn KR þær Unnur Tara, Signý og Helga fundu oft stórar glufur á vörn gestanna og gerðu auðveldar körfur. Að sama skapi reyndu Njarðvíkingar fjölda þriggja stiga skota enda meinaði sterk vörn KR þeim aðgang upp að körfunni.
 
Í stöðunni 39-28 átti Chantrell Moss kost á því að koma muninum undir 10 stig fyrir hálfleik þegar hún svo brá sér upp í loftið og tók glórulaust skot þegar um 6 sekúndur voru til hálfleiks. Slæm ákvarðanataka af hálfu Moss og nokkuð sem hafði einkennt fyrri hálfleikinn hjá Njarðvík en þær voru engu að síður skammt undan, 39-28, toppliði KR í vil þegar flautað var til hálfleiks.
 
Hildur Sigurðardóttir var með 12 stig í liði KR í hálfleik og Unnur Tara Jónsdóttir var með 9 stig en í liði Njarðvíkinga var Shantrell Moss með 15 stig og þær Ólöf Helga Pálsdóttir og Harpa Hallgrímsdóttir voru báðar með 6 stig.
 
Njarðvíkingar héldu sig áfram í svæðisvörn í upphafi síðari leikhluta en það skipti litlu, reyndar hefði það örugglega litlu máli skipt ef gestirnir hefðu mátt vera með sex leikmenn inni á vellinum! KR einfaldlega gerði út um leikinn í þriðja leikhluta. Unnur Tara Jónsdóttir hélt áfram að hrella Njarðvíkinga í teignum. Grænar lögðu mikið í að hafa Signýju Hermannsdóttur í einhverjum böndum og þá lék Unnur Tara lausum hala.
 
Vesturbæingar keyrðu upp hraðann og Njarðvíkingar gátu ekki haldið í við tempó KR-inga. Þegar þrjár og hálf mínúta voru liðnar af síðari hálfleik setti Sigurlaug Guðmundsdóttir fyrstu stig Njarðvíkinga úr þriggja stiga skoti og minnkaði muninn í 51-31. Munurinn orðinn 20 stig og vandséð hvernig botnliðið gæti klórað sig úr þessum vandræðum gegn toppliðinu.
 
Staðan að loknum þriðja leikhluta var 69-43 KR í vil og fór leikhlutinn 30-15 fyrir KR og ljóst að það tók KR aðeins 10 mínútur að gera út um leikinn. Í fjórða leikhluta héldu inn leikmenn í raðir KR sem að öllu jöfnu spila ekki margar mínútur í leik en það komu bara ferskir fætur af bekknum hjá Benna Gumm og hélt KR þetta 20 stiga forskoti allt til leiksloka.
 
Chantrell Moss var eini Njarðvíkingurinn í fjórða leikhluta sem þorði að láta til sín taka en hún lauk leik með 33 stig í Njarðvíkurliðinu en Unnur Tara Jónsdóttir var stigahæst í liði KR með 18 stig.
 
Njarðvík og KR mættust einnig í fyrsta leik tímabilsins og þar vann KR 48 stiga sigur en í kvöld urðu lokatölur 82-58 KR í vil og munurinn því 24 stig. Mögulega má segja að Njarðvíkingar hafi náð að bæta sig eitthvað frá fyrstu umferð en eins og sakir standa eiga þær grænklæddu ekki erindi í KR.
 
Næsti deildarleikur KR verður að Ásvöllum gegn Íslandsmeisturum Hauka en Njarðvíkingar mæta Snæfell í Ljónagryfjunni.