Það má með sanni segja að það hafi verið lítið um varnir í Grindavík í kvöld. Bæði lið ætluðu að keyra hratt og treysta á að fá annað hvort hraðaupphlaup eða gott þriggja stiga skot. Lið UMFG var nokkuð fáliðið í kvöld en aðeins 9 leikmenn voru á skýrslu og bæði Brenton og Páll Axel fjarverandi vegna veikinda.
ÍG menn náðu uppkastinu og fóru í fyrstu sókn leiksins en það var UMFG sem skoraði fyrstu stigin eftir aðeins 20 sek leik en þar var að verki Guðlaugur Eyjólfsson með þriggja stiga skot. UMFG spilaði stífa pressuvörn eftir skoraða körfu og það átti ekki að gefa ÍG mönnum neinn séns. Eftir fyrsta leikhlutann var staðan orðin 15-36 og ljóst að þetta yrði erfiður leikur fyrir ÍG menn.
 
En Guðmundur Ásgeirsson þjálfari ÍG hefur greinilega látið sína menn heyra það í leikhlé en ÍG menn mættu vel stemmdir til leiks og skoruðu fyrstu 10 stig leikhlutans og staðan orðin 25-36. Friðriki Ragnarssyni þjálfara Grindvíkinga leyst ekki á blikuna og skipaði sínum mönnum að hefja aftur pressuvörnina en á þessum tímapunkti hafði UMFG bakkað aðeins á vellinum. Grindvíkingar skoruðu næstu 14 stig og eftir það var ekki aftur snúið og staðan í hálfleik var 35-64 og ljóst hvernig leikurinn myndi fara.
 
Grindvíkingar héldu áfram að pressa í seinni hálfleik en ÍG mönnum tókst ágætlega að brjóta niður pressu Grindvíkinga en það sem skyldi milli liðana var mun betri nýting UMFG í skotum sínum auk þess sem leikmenn Grindavíkur virkuðu aðeins léttari á sér og í betra formi. Lokatölur leiksins urðu 77 – 147. Samtals tóku bæði lið 79 þriggja stiga skot (ÍG 9/34 og UMFG 16/45) og augljóst að leikmenn beggja liða höfðu lært körfubolta í Grindavík. ÍG menn mega vera stoltir af því að hafa skorað 77 stig gegn sterku liði Grindavíkur en það má með sanni segja að varnarleikur beggja liða hafi verið af skornum skammti.
 
Leikurinn var ágætis skemmtun fyrir Grindvíkinga sem fjölmenntu á leikinn. Núna vona Grindvíkingar að bikarævintýrið frá 2000 endurtaki sig en þá vann einmitt UMFG sigur á ÍG mönnum í 32-liða úrslitum.
 
Stigahæstir í liði Grindavíkur voru Þorleifur Ólafsson með 30 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar, bróðir hans Ólafur Ólafsson með 27 stig, 8 fráköst og 7 stolna, Guðlaugur Eyjólfsson með 24 stig og Ómar Örn Sævarsson með 20 stig og 16 fráköst.
 
Hjá ÍG mönnum var Bergvin Ólafarson með 15 stig og 13 fráköst (10 tapaðir boltar), Helgi Már Helgason með 15 stig og 9 fráköst og Eggert Daði Pálsson með 15 stig.
 
Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Ljósmyndir: Þorsteinn G. Kristjánsson – www.saltytours.is