Keflvíkingar eru komnir í 16 liða úrslit Subwaybikarsins, á hörkunni! Keflavík skellti bikarmeisturum Stjörnunnar 76-97 í Ásgarði en gestirnir leiddu allan leikinn, voru mun grimmari í öllum sínum aðgerðum og uppskáru sanngjarnan sigur. Gunnar Einarsson fór mikinn í liði Keflavíkur með 27 stig en atkvæðamestur hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 31 stig en þrátt fyrir þessar tölur hefur Justin átt betri daga sem og allt Stjörnuliðið sem var að tapa sínum fyrsta leik í vetur.
Fannar Helgason er enn fjarri góðu gamni í liði Stjörnunnar eftir hnémeiðsl sem hann hlaut í leik í Stykkishólmi og vonast Garðbæingar til þess að hann komist í búning á næstunni. Minnstu munaði að Keflvíkingar yrðu fyrir áfalli því þegar aðeins 8 sekúndur voru liðnar af leik kvöldsins meiddist Rashon Clark á fingri vinstri handar og reyndist fingurinn brotinn. Clark lét tjasla sér saman og var kominn aftur í atganginn þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta.
 
Keflvíkingar voru sprækir í upphafi leiks þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson lék lausum hala í teig Stjörnunnar. Jovan Zdravevski fékk það vandasama verkefni að hafa gætur á Ísafjarðartröllinu sem skoraði nánast að vild.
 
Þegar líða tók á fyrsta leikhluta kom Þröstur Leó Jóhannsson með stuðkörfu fyrir Keflavík og breytti stöðunni í 13-23 og gestirnir létu kné fylgja kviði og leiddu 14-30 eftir fyrsta leikhluta þar sem varnarleikurinn var í fyrirrúmi. Heimamenn voru algerlega á hælunum og skotnýting þeirra gegn þéttri vörn Keflvíkinga hreint út sagt hræðileg!
 
Keflvíkingar sáu glöggt að svæðisvörn þeirra gegn lélegri nýtingu Stjörnunnar myndi gefa vel svo þeir héldu sig við það varnarafbrigði bróðurpart leiksins. Gunnar Einarsson skoraði körfu og fékk víti að auki sem hann setti niður og breytti stöðunni í 15-38 fyrir Keflavík. Það var ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks að Stjörnumenn sýndu að þeir ættu titil að verja.
 
Stjörnumenn gerðu áhlaup og náðu að minnka muninn í 33-45 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Justin Shouse var kominn með 17 stig fyrir Stjörnuna í hálfleik og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 12 stig í liði Keflavíkur.
 
Keflvíkingar héldu sig við kjötkatlana í síðari hálfleik á meðan heimamenn reyndu áfram fyrir sér í þriggja stiga skotum og lítið gekk. Stjarnan tók 41 þriggja stiga skot og hitti aðeins úr 12 þeirra en náðu aðeins að rífa upp nýtinguna í teigskotunum með 46,4% nýtingu.
 
Kjartan Atli Kjartansson náði að brjóta á bak 11-0 áhlaup Keflavíkur með þriggja stiga körfu og Stjörnumenn reyndu víða að klóra í bakkann en lítið gekk gegn ákveðnum Keflvíkingum. Birgir Pétursson kom með smávægilega baráttu inn í lið Stjörnunnar í þriðja leikhluta en það var hvergi nærri því nóg þar sem Keflvíkingar voru einfaldlega mun sterkari á öllum sviðum og leiddu 55-71 fyrir fjórða leikhluta.
 
Gunnar Einarsson hélt áfram að hrella Stjörnumenn og snemma í fjórða leikhluta sallað hann niður þriggja stiga körfu og kom Keflavík í 58-76. Hið sama var uppi á teningnum í fjórða leikhluta og hinum þremur þar sem Stjörnumenn reyndu af veikum mætti að komast upp að hlið Keflavíkur sem átti svör í öllum tilfellum.
 
Lokatölur eins og áður greinir voru 76-97 Keflavík í vil sem eru komnir áfram í 16 liða úrslit Subwaybikarsins en bikarmeistararnir eru úr leik.
 
Gunnar Einarsson gerði 27 stig fyrir Keflavík í kvöld en næstir honum voru þeir Rashon Clark og Sigurður Gunnar Þorsteinsson báðir með 19 stig, Sigurður tók einnig 10 fráköst. Hjá Stjörnunni gerði Justin Shouse 31 stig en hitti aðeins úr 3 af 11 þriggja stiga tilraunum sínum. Næstur Justin í liði Stjörnunnar var Jovan Zdravevski með 20 stig og 8 fráköst.
Viðtöl eftir leik við Sigurð Gunnar Þorsteinsson, Keflavík og Magnús Helgason, Stjörnunni.