Keflavíkurstúlkur virðast vera komnar á sigurbraut eftir stórsigur á gestum sínum úr Stykkishólmi í kvöld. Gestrisnin var lítil í Toyota-höllinni hjá heimastúlkum sem  sigruðu 83:56. 
 Það var líkt og að Snæfellsstúlkur hafi gleymt hæfileikum sínum til að leika körfuknattleik í fyrsta leikhluta. Keflavíkurliðið spilaði gríðarlega góða vörn og litu gestirnir út eins og byrjendur á tímabili. Auðveld sniðskot undir körfunni voru ekki að rata sína leið og staðan eftir fyrsta leikhluta 23:5. 
 
Gestirnir vöknuðu svo loks til lífsins í öðrum leikhluta og voru þá að leika af eðlilegri getu. Keflavíkurstúlkur að sama skapi virtust slaka örlítið á ólinni en héldu þó forystu sinni örugglega. Keflavík leiddi fyrri hálfleik með 18 stigum og fóru því sáttar til búningsherbergja í hálfleik. 
 
Í þeim síðari þá byrjuðu heimastúlkur sterkari og greinilegt að nýr erlendur leikmaður þeirra Kristi Smith er að færa liðinu mikið sjálfstraust. Ungu stúlkurnar virtust vera örlítið öruggari í sínum leik og leikur þeirra töluvert hraðari upp völlinn. 
 
Keflavík leiddi með 26 stigum fyrir síðasta leikhluta og í raun formsatriði að klára leikinn fyrir heimastúlkur. Kristi Smith virðist vera svo sannarlega happafengur fyrir Keflavíkurstúlkur. Hún setti niður 21 stig ásamt því að stela 6 boltum. Reynslu boltinn Birna Valgarðsdóttir fylgdi henni með 15 stig. Hjá gestunum var það Kristen Green sem setti niður 18 stig og líkast til ljósasti punktur kvöldsins var hin unga Gunnhildur Gunnarsdóttir sem skoraði 17 stig. 
 
Viðtöl á Karfan TV.