LeBron James hefur viðrað þá hugmynd að hann hyggist skipta um treyjunúmer í virðingarskyni við Michael Jordan. James hefur allan sinn feril leikið í númer 23, væntanlega til heiðurs Jordan, sem lék sinn fyrsta leik í NBA nokkrum vikum áður en LeBron kom í heiminn árið 1984. Hann segist nú íhuga að skipta því út til að heiðra Jordan fyrir framlag sitt til íþróttarinnar og það ætti að gilda um alla leikmenn. Hann hyggst þá skipta yfir í 6, sem er landsliðsnúmerið hans og einnig númerið sem annar uppáhaldsleikmaður hans, Julius Erving, notaði á sínum glæsta ferli.
„Michael Jordan ætti að fá viðurkenningu á því sem hann gerði fyrir leikinn og það fljótt,“ sagði James í viðtali við fjölmiðlamenn eftir leik á fimmtudagskvöldið. „Það væri enginn LeBron James, Kobe Bryant eða Dwayne Wade ef Michael Jordan hefði ekki notið við. NBA setja ekki mynd af honum í merki deildarinnnar og eitthvað verður þá að gera annað. Mér finnst að enginn NBA-leikmaður ætti að nota 23. Ég er að fara í gang með undirskriftalista og vonast til að allir leikmenn skrifi undir það. Ef ég nota það ekki, ætti enginn að nota það.“
 
Fari James af stað með þetta átak fyrir alvöru ætti það að verða auðsótt mál því að þeir sem bera númerið í dag eru ekki beint á svipuðu stigi og Jordan, þó þar séu hæfileikaríkir piltar inn á milli.
 
Þeir eru: Devin Brown, Marcus Camby, Toney Douglas, Stephen Graham, Kevin Martin, Wes Matthews, Jodie Meeks, Jason Richardson, C.J. Watson, Martell Webster og Louis Williams. Ef til þess kæmi að einhver þeirra hafnaði umleitunum James er hætt við að röksemdafærsla þeirra yrði hálf vandræðaleg.
 
Engu að síður er hægt að líta kalt á málið og benda á að þetta gæti líka verið augljóst dæmi um brellu til að moka út fleiri treyjum og öðrum varningi frá LeBron. Auk þess sem svo heppilega vill til að Jordan er sjálfur að kynna 25 ára afmælisútgáfu af Air-Jordan skóm. Sölumennska dubbuð upp í hugsjónarbúning?
 
Hugmyndin er hins vegar ekki alslæm og vissulega er ekki hægt að andmæla því að enginn maður kemst nálægt þeim áhrifum sem Jordan hafði á útbreiðslu og vinsældir íþróttarinnar. Vissulega höfðu Magic og Larry Bird gert sitt til að lyfta körfuboltanum upp úr öldudal, en sprengingin sem varð upp úr 1990 er einum manni að þakka, og hann var númer 23 (og 45 í 22 leiki en það telst varla með).

H: Yahoo! Sports
 
ÞJ

Mynd – James mun sennilega eyða meiri tíma í treyju númer 6 á næstunni