Eftir stutta hveitibrauðsdaga Allens Iverson og Memphis Grizzlies hefur félagið ákveðið að segja upp samningi við leikmaninn, en samið var til eins árs.
 
Ekki er hægt að segja að þetta komi á óvart því að Iverson hefur verið fjarverandi síðustu vikuna eftir að hafa margoft látið móðan mása um stefnu þjálfara liðsins að láta sig byrja á bekknum í þeim þremur leikjum sem hann tók þátt í fyrir liðið.
 
Iverson, sem var samningslaus í sumar áður en hann samdi við Grizzlies, sagði eftir leikina að hann myndi aldrei sætta sig við annað en að vera byrjunarliðsmaður, ekki síst í liði af þessum styrkleika.
 
Hann lét bæði þjálfara og liðsfélaga sína fá það óþvegið áður en hann ákvað að taka sér frí „af persónulegum ástæðum“ þann sjöunda þessa mánaðar. Eftir mikla óvissu þar sem forsvarsmenn liðsins heyrðu ekkert í Iverson ákvað framkvæmdastjórinn Chris Wallace að höggva á hnútinn og sleppa höndinni af leikmanninum sem hafði augljóslega lítinn áhuga á að snúa aftur til liðsins.
 
Þetta er enn einn sorgarkaflinn í sögu Iverson síðustu tveggja ára, en þó að hann hafi aldrei verið óhræddur við að viðra skoðanir sínar fyrr á ferlinum gat hann alltaf unnið það upp með frammistöðu sinni á vellinum. Eftir að hafa verið skipt til Detroit Pistons frá Denver Nuggets í upphafi síðasta tímabils fór að síga á ógæfuhliðina. Hann lenti upp á kant við þjálfara Pistons, einmitt fyrir að setja sig á bekkinn og undir lok tímabilsins var hann settur í sjúkraleyfi. Í sumar bjóst hann svo við að komast að hjá öðru liði, en fékk í raun aðeins eitt tilboð, frá Grizzlies. Hann lofaði bót og betrum og sagðist ætla að hjálpa hinu unga liði Grizzlies að ná lengra.
 
Þroskamerkin létu hins vegar standa á sér og nú er hann staddur í einskismannslandi, án félags og í sannleika sagt er vafi á að hann muni komast í bitastætt starf eftir þessa síðustu uppákomu.
 
Hann hefur enn upp á mikið að bjóða sem leikmaður, en lið úr fremstu röð þora ekki að taka áhættu á að taka hann að sér vegna hættu á að hann skemmi liðsandann og augljóst er að ung og efnileg lið eiga ekki upp á pallborðið hjá honum.
 
H: Yahoo! Sports
 
ÞJ