Háskólaliðið TCU fer vel af stað en í nótt vann liðið sinn þriðja leik í röð þar sem Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði TCU með 15 stig. TCU tók á móti Fresno State og hafði betur 63-52.
Helena var í byrjunarliðinu og auk stiganna 15 þá var hún með 7 stoðsendingar, 5 fráköst og 1 stolinn bolta. Leikurinn í nótt var ekki leikur í Mountain West riðlinum en keppni í honum er ekki hafin.
 
Þá hefur sviðsljósið vestra heldur betur beinst að Helenu þar sem hún ásamt tveimur öðrum leikmönnum í öðrum liðum Mountain West riðsilsins var útnefnd á 2009-2010 Naismith Trophy Preseason Watch List.
 
Það er Atlanta Tipoff Club sem velur leikmenn á listann en jafnan er leikmaður af þessum lista sem er útnefndur besti leikmaður háskólaboltans ár hvert svo heiðurinn er gríðarlegur. Það er því ljóst að Bandaríkjamenn fylgjast vel með Helenu enda er hún leiðtogi í einu af sterkustu skólaliðum landsins.
 
Þetta er svakalega flottur heiður og alltaf gaman að sjá að það sé tekið eftir manni, það segir mér að ég sé á réttri braut og ýtir mér til að vinna enn harðar,“ sagði Helena í samtali við Karfan.is en TCU á hörkuleik fyrir höndum um helgina.
 
,,Tímabilið er nýbyrjað hérna hjá okkur, við erum búnar að spila tvo alvöru leiki. Mér finnst ég ekki hafa náð að sína mitt rétta andlit, þ.e. ég veit að ég hef bætt mig á nokkrum sviðum og ég hef ekki náð að binda þetta allt saman í einn góðan leik. Það er t.d. stórleikur á laugardaginn gegn Oklahoma University, en þær komust í Final four í fyrra. Þá verðum við aldeilis að strengja saman góðan leik frá mörgum okkar, og ég veit að þegar ég spila ákveðið þá smitar það út frá sér. Þetta er gífurlega spennandi ár, og ég hlakka mjög til að sjá hvernig þetta mun allt ganga upp,“ sagði Helena sem verður í eldlínunni 21. nóvember n.k. þegar TCU heimsækir Oklahoma í Norman, Oklahoma.