Haukar eru einir á toppi 1. deildar karla eftir að liðið sigraði Þór Þorlákshöfn á Ásvöllum í kvöld. Fyrirfram var búist við miklum slag enda liðin jöfn að stigum og með sama vinningshlutfall. Haukaliðið var töluvert betri í leiknum og sigraði með 24 stigum, 92-68.
Leikurinn fór frekar rólega af stað og skiptust liðin á fyrstu körfunum. Í stöðunni 10-8 fyrir heimamenn skiptu Haukar um gír og þéttu vörnin. Haukar komust í 21-10 áður en Þórsarar náðu að skora. Þórsarar hresstust og minnkuðu muninn og leiddu Haukar aðeins með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta 23-19.

Baldur Þór Ragnarsson skoraði fyrstu stig Þórs í öðrum leikhluta og minnkaði muninn í 23-21. Haukaliðið barðist vel og keyrði muninn strax upp í 11 stig. Hægt og bítandi juku þeir muninn og voru á endanum komnir með 19 stiga forystu og munaði mikið um Steinar Aronsson sem fór hamförum og skoraði 12 af sínum 14 stigum sínum á 5 mínútna kafla. Haukar leiddu 48-29 í hálfleik og stemningin var öll þeirra meginn.

Þórsarar komu einbeittir til leiks í seinni hálfleik og voru ekki á því að gefa Haukum þetta á silfurfati. Ljóst var að það þyrfti mikinn kraft í að minnka muninn en gerðu þó heiðarlega tilraun.  Með þremur þriggjastiga körfum í röð minnkuðu þeir muninn og náðu mest að minnka muninn í 12 stig en gamli refurinn Marel Örn Guðlaugsson slökkti neistan í gestunum með þrist að hætti hússins, um það bil einum og hálfum metra fyrir utan línuna.

Þór vann leikhlutann með fimm stigum og leiddu Haukar því með 14 stigum, 67-53. Þórsarar gerðu endanlega út um alla von um að komast inn í leikinn þegar Baldur Þór Ragnarsson braut af sér og fékk sína fjórðu villu. Eftir tuð fékk hann einnig tæknivillu og var útilokaður frá leiknum. Þarna voru aðeins 23 sekúndur búnar af fjórða leikhluta en Baldur hafði verið að stríða Haukavörninni verulega með hraða sínum.

Eftirleikurinn var formsatriðið fyrir Hauka sem jafnt og þétt juku muninn aftur upp í 20 stig og enduðu leikinn með 24 stiga sigri 92-68 og sitja því einir á toppi deildarinnar.

Steinar Aronsson var stigahæstur í annars jöfnu liði Hauka með 14 stig en sex leikmenn skoruðu 10 stig eða meira hjá Haukaliðinu. Næstur honum var Sævar Haraldsson með 13 stig og 9 fráköst.

Hjá Þór bar Grétar Erlendsson höfuð og herðar í liði Þórs með 20 stig og 5 fráköst en næstur honum í skori var Baldur Þór Ragnarsson með 11 stig.

 
Staðan í 1. deild
 
 
Myndasafn

emil@karfan.is

Mynd: stebbi@karfan.is