Haukar úr Hafnarfirði eru á toppi 1. deildar karla eftir sigur á Þór Akureyri í dag 86-61. Þeir deila toppsætinu með Þór Þ. en þessi lið mætast næsta föstudag í sannkölluðum toppslag.
 
Haukar og Þór eru með 10 stig en KFÍ sem á leik til góða er með 8 stig.
 
Leikurinn í dag byrjaði af krafti og voru gestirnir frá Akureyri töluvert hressari en þeir voru að leika sinn annan útileik á þrem dögum en þeir mættu Ármanni á föstudagskvöld.
 
Haukarnir þurftu nokkrar mínútur til þess að komast af stað og á meðan voru Þórsarar mjög sprækir og létu heimamenn líta illa út. Haukar náðu að jafna 15-15 eftir sjö mínútna leik og náðu svo forskotinu með körfu frá Davíð Páli Hermannssyni en hann skoraði 9 stig í dag og tók 10 fráköst. Haukar leiddu svo 21-16 eftir fyrsta leikhlutann en Emil Barja skoraði lokakörfuna þegar hann þræddi í gegnum alla Þórsvörnina og lagði boltann ofaní um leið og flautan gall.
 
Í öðrum leikhluta náðu Haukar að keyra upp muninn og áttu Þórsarar í töluverðum vandræðum í sókn sem og í vörn. Þeir reyndu að pressa en Haukar leystu pressuvörnina auðveldlega og fengu nokkrar auðveldar körfur upp úr því. Þórsarar hættu pressunni sinni fljótlega en Haukar héldu áfram að auka muninn jafnt og þétt og þegar flautað var til hálfleiks munaði 24 stigum 48-24 en Haukar unnu annan leikhluta 27-8.
 
Seinni hálfleikur var jafn og Þórsarar reyndu eins og þeir gátu að minnka bilið og unnu t.a.m. þriðja leikhluta 15-18. Þrátt fyrir tilraunir Þórsara til að koma sér aftur í leikinn voru Haukarnir einfaldlega of sterkir og unnu að lokum 25 stiga sigur 86-61.
 
Breiddin hjá Haukum er þeirra helsti styrkleiki en stigaskor liðsins dreifðist jafnt. Stigahæsti leikmaður liðsins var með 13 stig(Elvar Steinn Traustason) en fjórir leikmenn voru með 10 stig eða meira og tveir voru með 9 stig.
 
Besti maður vallarins var Emil Barja en hann daðraði létt við þrennuna eftirsóttu en hann skoraði sex stig, tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar en þessi snjalli 18 ára leikstjórnandi hefur verið mjög stöðugur í lið Hauka í vetur og oftar en ekki verið besti maður vallarins.
 
Hjá Þór skoraði Wesley Hsu 16 stig en næstur honum var Elvar Sigurjónsson með 9 stig og 15 fráköst. Sigurður Grétar Sigurdsson meiddist eftir aðeins þrjár mínútur í dag en hann virtist hafa tognað í læri.
 
 
 
Umfjöllun: Stefán Már Haraldsson
 
Mynd: Helgi Björn Einarsson reynir að komast í gegnum varnarmúr Þórsarar í dag – stebbi@karfan.is