Fjölnismenn voru stoppaðir í Kennaraháskólanum í kvöld af baráttuglöðum ÍR-ingum er liðin mættust í 9. umferð Iceland Express deildar karla. ÍR vann sinn fjórða deildarsigur á tímabilinu eru þeir lögðu nýliðana 84-73 og að þessu sinni var það Gunnlaugur H. Elsuson sem hélt ÍR við efnið með skemmtilegri baráttu.
Með Christopher Smith í broddi fylkingar voru Fjölnismenn mun líflegri. Smith reyndist ÍR erfiður á blokkinni og kom Fjölni í 11-21 er hann í tvígang gerði körfu og fékk villu að auki. Í stöðunni 11-25 var heimamönnum misboðið og gerðu þeir sex síðustu stig upphafsleikhlutans og því leiddu Fjölnismenn 17-25. Ingvaldur Magni Hafsteinsson fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta í liði Fjölnis og snemma í öðrum leikhluta fékk Smith einnig sína þriðju villu og veikti það teiginn verulega hjá Fjölni.
 
Fjölnismenn skiptu ört á milli svæðisvarnar og maður á mann varnar en þeir voru augljóslega vængbrotnir með Magna og Smith á bekknum í villuvandræðum og ÍR-ingar nýttu sér tækifærið.
 
Gunnlaugur Elsuson kom af tréverki ÍR inn á völlinn með mikla baráttu og Eiríkur Öndunarson lét til sín taka og kom ÍR í 37-33 með sex stigum í röð í teignum. Svæðisvörn Fjölnis var hér orðin hriplek og til að sýna endanlega fram á það smellti Eiríkur niður þrist og breytti stöðunni í 42-35. Tómas Tómasson átti þó lokaorðið í fyrri hálfleik og minnkaði muninn í 43-39 með skoti af endalínunni um leið og flautan gall.
 
Þeir Eiríkur Önundarson og Nemanja Sovic voru stigahæstir í liði ÍR í hálfleik, báðir með 9 stig en Christopher Smith var með 12 stig í liði Fjölnis og Tómas 10.
 
Rétt eins og í fyrri hálfleik þá voru Fjölnismenn frískari í upphafi leiks og náðu að jafna metin 43-43 en þá kviknaði á heimamönnum á nýjan leik. Gunnlaugur Elsuson kom inn á að nýju og Kristinn Jónsson átti fína spretti í þriðja leikhluta. Lykilmenn beggja liða voru í bullandi villuvandræðum og urðu að passa sig.
 
Í þriðja leikhluta voru ÍR-ingar að leika vel en þrátt fyrir mikla baráttu Fjölnismanna í sóknarfráköstunum voru þeir ekki að fara vel með annað og þriðja færi í hverri sókn svo þeir högnuðust lítið á baráttunni, að þessu sinni. Reyndar tóku Fjölnismenn fleiri sóknarfráköst í leiknum heldur en varnarfráköst!
 
ÍR leiddu 62-50 eftir þriðja leikhluta en fjórði leikhluti var algerlega í eign heimamanna sem jafnan náðu að slíta sig fjarri Fjölni ef þeir nálguðust. Ingvaldur Magni setti þrist fyrir gestina og minnkaði muninn í 69-58 en skömmu síðar má segja að Hreggviður Magnússon hafi rekið smiðshöggið í leikinn er hann breytti stöðunni í 75-60 með þriggja stiga körfu fyrir ÍR.
 
Lokatölur urðu svo 84-73 ÍR í vil og fjórði deildarsigur þeirra í höfn og sigurgöngu Fjölnismanna lokið í bili sem fyrir leik kvöldsins höfðu unnið tvo deildarleiki í röð. Nemanja Sovic gerði 26 stig fyrir ÍR í kvöld og tók einnig 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Maður leiksins var þó Gunnlaugur H. Elsuson sem hélt ÍR við efnið og færði þeim mikla baráttu. Gunnlaugur gerði 11 stig og tók 3 fráköst og Hreggviður Magnússon var með 18 stig og 5 fráköst.
 
Hjá Fjölni var Christopher Smith illviðráðanlegur í teignum með 27 stig og 15 fráköst en þegar líða tók á leikinn fóru ÍR-ingar að átta sig á því að maðurinn væri ekki óstöðvandi. ÍR Tvídekkuðu Smith og þröngvuðu honum oft í vandræði. Reyndar var ÍR vörnin til fyrirmyndar ef frá er talinn fyrsti leikhluti í kvöld. Þrír leikmenn komu svo næstir Smith með 12 stig en það voru þeir Tómas Tómasson, Ægir Steinarsson og Ingvaldur Magni Hafsteinsson.
 
Dómarar leiksins:
Sigmundur Már Herbertsson
Georg Andersen