Snæfell fór suður með sjó og tóku Grindvíkingar á móti þeim. Þorleifur Ólafsson var veikur hjá Grindavík en Snæfellingar söknuðu Pálma Freys sem á við bakmeiðsli að stríða en þeir hafa endurheimt Sigurð Þorvaldsson sem var með eymsli í hnjám og hefur nú unnið bug á þeim. Sigurður var heldur betur orðinn hungraður en hann var kominn með 12 stig fyrir Snæfell eftir fyrsta hluta sem Snæfell leiddi 19-24. Liðin voru hnakka í hnakka fyrsta hlutann og skiptust á að vera yfir og jafna á víxl.
Snæfell hélt ekki í forystuna lengi í öðrum hluta eftir að Darrel Flake jafnaði 28-28 af vítalínunni og Páll Axel setti einn ískaldann úr kælinum og kom þeim yfir 31-28. Mikið gekk á þessum tíma og svaraði Sigurður með tveimur þristum sem kom Snæfeli í 33-34 en Brenton átti opið lay-up rétt áður. Skorið dreifðist meira hjá Grindavík en Snæfelli og liðin heldu áfram að vera hnífjöfn og hraði í sóknarleik liðanna. Páll Axel setti þrist úr horninu undir lok hlutans og lagaði stöðuna í hálfleik sem var 44-47 fyrir Snæfell.
 
Hjá Grindavík var Páll Axel heitur með 15 stig og Darrel Flake 11 stig. Arnar og Ómar voru að leika ágætlega komnir með 5 stig og 4 fráköst hvor.
 
Sigurður Þorvalds var óstöðvandi fyrir Snæfell kominn með 24 stig og 5 fráköst, yfir 50% stigaskors þeirra og Hlynur var kominn með 12 stig og 6 fráköst. Emil var einnig að leika vel með 8 stig. Heldur meiri breidd hjá Grindavík að skila framlagi í hús en hjá Snæfelli þar sem Jón Ólafur og Sean Burton voru varla að tolla á blaði.
 
Sean Burton bætti úr sinni stöðu og setti þrjú stig í upphafi þriðja hluta og kom Snæfelli í 44-50. Jón Ólafur komst í gang og skoraði 9 stig á stuttum tíma og áttu Grindavík lítil svör við honum þegar þeir komust í 51-61. Grindavík voru, þrátt fyrir að elta að labba, í gegnum vörn Snæfells og áttu auðveld lay-up hvað eftir annað en ekki fór mikið fyrir varnarleik beggja liða. Darrel Flake var kominn með 4 villur og á tré verkið um miðjann fjórðunginn. Grindavík herti á sinni stöðu með góðu framlagi frá Arnari og Ómari sérstaklega, áttu 13-0 kafla og komust yfir 66-63. Grindavík leiddi 71-67 og voru að detta í meira stuð.
 
Hittni Snæfellinga var slök í upphafi fjórða leikhluta á meðan Grindavík voru á setja niður góðar stórar körfur. Páll Axel fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og setti Hlynur bæði niður og staðan var 83-79 fyrir heimamenn í Grindavík en þeir höfðu haft þægilega forystu sem Snæfell saxaði aðeins á en staðan var 80-71 fyrir Grindavík rétt áður en þeir slökuðu á varnarleiknum og svo voru Arnar og Flake komnir með 5 villur og Ómar 4 villur. Hlynur jafnaði 85-85 fyrir Snæfell þegar 30 sek voru eftir og leikhlé var tekið. Ekki dugði þriggja stiga skot Páls Axels og áttu Snæfellingar frákastið en Sean Burton klikkaði einnig á sínu skoti og Sveinn Arnar líka undir lok hlutans og framlenging var staðreynd og staðan 85-85.
 
Hlynur skaut Snæfelli strax í 85-88 og Ómar svaraði í kjölfarið og einnig Brenton. Ólafur setti svo góðann þrist fyrir Grindavík og komust þeir í 92-88. Sean Burton svaraði svo með tveimur þristum og staðan varð svo 92-94 lengi. En undir lok framlengingar setti Björn Steinar niður þrist sem kom þeim í 95-94 og ein sekúnda lifði á klukkunni þegar Ingi Þór tók leikhlé. Hlynur Bærings átti síðasta orðið í leiknum og klikkaði skot hans fyrir Snæfell sem beið ósigur í Grindavík í leik jafnra liða 95-94.
 
Hjá Grindavík var breiddin meiri en Páll Axel fremstur þar með 21 stig. Ómar var með 15 stig og 8 fráköst. Ólafur Ólafs 14 stig. Darrel Flake 13 stig. Brenton 10 stig. Arnar og Björn 9 stig hvor en Arnar tók líka 8 fráköst og var með 7 stoðs. Hjá Snæfelli var Sigurður með 24 stig, öll í fyrri hálfleik, og 12 fráköst. Hlynur setti 23 stig og 13 fráköst. Sean Burton kom til í seinni hlutanum og setti 18 stig. Nonni Mæju 15 stig og 8 fráköst. Emil Þór 12 stig.
 
 
Texti: Símon B. Hjaltalín.
Ljósmyndir: Þorsteinn G. Kristjánsson