Fjölnismenn hafa krækt sér í sín fyrstu stig í Iceland Express deildinni þetta árið en þeir lögðu FSu 77-98 í botnslag deildarinnar á Selfossi. Heimamenn í FSu héldu í við gesti sína í fyrri hálfleik þar sem leikar stóðu 42-48 en í þeim síðari reyndust Fjölnismenn með dýpri bekk og betra úthald og var það FSu um megn.
Óhætt er að segja að lið FSu sé vængbrotið um þessar mundir og var því ekki spáð til afreka fyrir leiktíðina. Þó sáust fínar rispur inn á milli hjá botnliðinu sem þarf nánast á kraftaverki að halda til að vænka hag sinn í deildinni.
 
Aðeins sex leikmenn FSu voru í upphitun og þeirra á meðal var þjálfarinn Rob Newson í búning. Þegar ein mínúta var til leiks bættust fleiri við í hóp FSu en þeir sátu á fundi á öðrum stað í Iðu fram að leik. Nokkrir af þeim leikmönnum sem á dögunum fengu reisupassann hjá FSu sátu í stúkunni og fylgdust með.
 
Fjölnismenn byrjuðu betur og pressuðu FSu frá fyrstu sekúndu leiksins. Gestirnir komust í 3-11 og 7 af þeim stigum gerði leikstjórnandinn Ægir Þór Steinarsson. Fjölnismenn juku forystuna í 7-20 en þá var heimamönnum misboðið og gyrtu í brók.
 
Kjartan Kárason barðist vel fyrir FSu og það var svo Dominic Baker sem átti lokaorðið fyrir heimamenn í upphafsleikhlutanum með þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 19-27.
 
Baker opnaði annan leikhluta eins og hann lokaði þeim fyrsta og minnkaði muninn í 22-27. Það var svo Alex Zimnickas sem jafnaði metin fyrir FSu er hann skoraði í teignum og fékk villu að auki þar sem vítið steinlá og staðan 29-29.
 
Tveir þristar frá Tómasi Tómassyni og Arnþóri Guðmundssyni færðu Fjölni enn á ný forystu, 31-39. Selfyssingar létu þó ekki deigan síga og nýttu sér að Fjölnismenn höfðu gefið verulega eftir frá fyrstu mínútum leiksins og ekki var laust við að Fjölnismenn hefðu stórlega vanmetið gestgjafa sína.
 
Gestirnir úr Grafarvogi leiddu þó í hálfleik 42-48 þrátt fyrir að FSu hafi unnið annan leikhluta 23-21. Christopher Smith var atkvæðamestur í liði Fjölnis í hálfleik með 14 stig og 9 fráköst en honum næstir voru þeir Níels Dungal og Ægir Þór Steinarsson báðir með 10 stig. Hjá FSu var Kjartan Kárason stigahæstur með 15 stig í hálfleik en Dominic Baker var kominn með 13 stig.
 
Heimamenn gerðu fjögur fyrstu stigin í síðari hálfleik og staðan orðin 46-48 þegar Fjölnismenn fóru að keyra upp hraðann. Eftir um fimm mínútna leik höfðu Fjölnismenn náð 11 stiga forskoti en Dominic Baker reyndi að klóra í bakkann með erfiðri þriggja stiga körfu um leið og skotklukka FSu rann út. Staðan 51-61 en það átti heldur betur eftir að syrta í álinn hjá heimamönnum sem gátu ekki hlaupið lokasprettinn með gestum sínum þótt þeir örugglega vildu.
 
Þegar þriðja leikhluta var lokið stóðu leikar 55-72 Fjölni í vil sem voru orðnir einráðir á vellinum gegn örþreyttum liðsmönnum FSu. Yfirburðir Fjölnismanna héldu áfram í fjórða leikhluta og var þetta aðeins spursmál um hve stór sigur þeirra yrði. Lokatölur reyndust vera 77-98 Fjölnismönnum í vil.
 
Alex Zimnickas var stigahæstur í liði FSu með 24 stig og næstur honum var Dominic Baker með 23 stig. Kjartan Kárason sem er að leika sínar fyrstu mínútur í úrvalsdeild í tæpan áratug náði að stríða Fjölnismönnum með góðri baráttu og 21 stigi. Hjá Fjölni var Christopher Smith atkvæðamestur með 19 stig og 13 fráköst og þá var Ægir Þór Steinarsson einnig með tvennu í 14 stigum og 10 stoðsendingum. Níels Dungal gerði svo 16 stig í liði Fjölnis.