Leikjum kvöldsins er nú lokið. Grindavík vann sinn fyrsta deildarsigur í langan tíma þegar þeir lögðu Blika í Smáranum 104-72. Tindastóll vann sinn annan sigur í röð í Garðabænum þegar þeir lögðu heimamenn 95-93 eftir æsispennandi lokasekúndur. Í Hveragerði héldu Njarðvíkingar sigurgöngu sinni áfram og unnu Hamar 100-89. Í 1. deild karla unnu Valsarar Hött fyrir austan 75-74 og Haukur unnu ÍA á Akranesi 79-63.
Darrel Flake var að leika sinn fyrsta leik fyrir Grindavík og var stigahæstur þeirra með 21 stig auk þess sem hann tók 7 fráköst en stigahæstur Blika var John Davis með 21 stig auk 8 frákasta.
 
Í Garðabænum var Justin Shouse í miklum ham, skoraði 38 stig og gaf 11 stoðsendingar en það dugði ekki til gegn Tindastól og fyrsta tap Stjörnunnar í vetur leit dagsins ljós. Fjórir leikmenn skoruðu 89 af 95 stigum Tindastóls og var Amani Bin Daanish þeirra stigahæstur 26 stig auk þess að taka 12 fráköst.
 
Nokkur spenna var í Hveragerði en Njarðvíkingar sigldu sigrinum þó örugglega í höfn. Annan leikinn í röð var Andrey Dabney sjóðandi heitur og skoraði 40 stig núna, tók 8 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og fiskaði 12 villur. Magnús Gunnarsson var heitastur Njarðvíkinga og skoraði 32 stig, hitti úr 7 af 15 þriggja stiga skotum sínum en að auki gaf hann 7 stoðsendingar.
 
Á Akranesi unnu Haukamenn öruggan sigur. Örn Sigurðarson var þeirra stigahæstur með 16 stig en Hörður Nikulásson og Dagur Þórisson skoruðu 12 hvor fyrir ÍA.
 
 
Mynd Hjalti Árnason – Darrell Flake lék sinn fyrsta leik fyrir Grindavík og var stigahæstur með 21 stig