Óhætt er að segja að útvarpsmaðurinn Freyr Eyjólfsson hafi ,,tjókað“ í morgun þegar kom að því að standa við stóru orðin. Freyr og Þórður Helgi Þórðarson efndu til veðmáls síðasta föstudag í útvarpsþættinum Morgunvaktin á Rás 2 um bikarleik Njarðvíkur og KR þar sem taparinn skyldi syngja stuðningslag sigurliðsins. Þórður er stuðningsmaður Njarðvíkur en Freyr er KR-ingur og tapaði þ.a.l. veðmálinu og átti í morgun að syngja stuðningslag Njarðvíkur íklæddur græna búningnum.
Þórður Helgi mætti með búning af dýrari gerðinni fyrir Frey en þann búning átti bakvörðurinn harði Ástþór Ingason sem var fyrirliði Njarðvíkurliðsins á meðan veldi þeirra grænu stóð sem hæst. Freyr klæddist því sögulegri flík þegar hann nánast virti veðmálið að vettugi, ef ekki hefði verið fyrir flíkina hefðu veðmálasérfræðingar landsins gengið af göflunum.
 
Eflaust biðu margir spenntir eftir því að Freyr myndi brýna raust sína enda þekktur söngfulg en annað kom á daginn. Freyr hafði ekki orðið sér úti um textann, mætti ekki með gítarinn og muldraði nokkrar línur úr stuðningslagi Njarðvíkinga, og það með semingi. Þetta var svona að hætti Audda sem jafnan skiptir litum þegar hann á að leika eitthvað brjálæðislegt eftir Sveppa eða Ofur-Huga.
 
,,Ég vil ekki meina að Freyr hafi tjókað! Hann gerði þetta kannski ekki vel enda var veðmálið bara um að mæta í búningum andstæðingsins. Lára tróð þessu lagi í veðmálið. Hann stóðst veðmál okkar en kannski ekkert rosalega vel hennar Láru," sagði Þórður Helgi og virtist fyllilega sáttur við niðurstöðu dagsins.
 
Freyr áréttaði þó í útvarpsþættinum að ekkert lið á Íslandi gæti glatt jafn marga og þegar það tapaði, átti hann þar vitaskuld við KR. Mörg liða landsins mæta með sinn besta leik er þau mæta KR enda eitt elsta og sögufrægasta lið Íslands.
 
Smellið hér  til að hlusta á þegar Freyr raular brot úr Njarðvíkurlaginu. Þá er einnig komið inn myndband frá morgninum á Facebooksíðu Morgunvaktarinnar.
 
Texti: nonni@karfan.is  
Ljósmyndir/Morgunvaktin – Rás 2: Freyr virðist ekkert allt of sáttur við Njarðvíkurbúninginn.