Njarðvík, Ármann og Skallagrímur tryggðu sér sæti í 16 liða úrslitum Subwaybikars karla í kvöld með sigrum í jöfnum leikjum. Njarðvík lagði KR 90-86, Ármann vann ÍA á Skipaskaga 60-58 og Skallagrímur vann Þór á Akureyri 103-101.
 
Leikur Njarðvíkur var æsispennandi og þegar tæpar fjórar mínútur var staðan 79-79 en heimamenn sigldu sigrinum í land. Magnús Þór Gunnarsson var sjóðandi heitur og skoraði 28 stig, hitti úr 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Semaj Inge var stigahæstur KR inga með 19 stig.
 
Á Akranesi höfðu heimamenn lengstum forystuna og komust mest 9 stigum yfir en það dugði ekki, Ármenningar komstu mest 2 stigum yfir og það var lokamunurinn. Geir Þorvaldsson og Þorsteinn Húnfjörð skoruðu 10 stig hvor fyrir Ármann en Halldór Gunnar Jónsson var stigahæstur heimamanna með 15 stig.
 
Skallagrímsmenn komu ákveðnari til leiks á Akureyri og höfðu 8 stigum yfir í hálfleik en í þeim seinni sigu heimamenn á. Silver Laku var stigahæstur gestanna með 35 stig en Wesley Hsu skoraði 28 fyrir heimamenn.
 
Á Laugarvatni vann 2. deildarlið Laugdæla 1. deildarlið Hattar 80-73.
 
Þá sigraði Tindastóll Val 61-60 í bikarkeppni unglingaflokks karla.
 
runar@karfan.is
 
Mynd: nonni@karfan.is