Hamarsliðin í karla- og kvennaflokki fengu tvo hörkuleiki í 16 liða úrslitum Subwaybikarsins þegar dregið var í keppninni í dag. Kvennaliðið mætir toppliði KR og karlaliðið mætir Snæfell í Stykkishólmi. Karfan.is náði á Ágúst Sigurð Björgvinsson þjálfara Hamarsliðanna en forsmekkurinn að bikarviðureign Hamars og KR í kvennaflokki verður annað kvöld þegar KR mætir í heimsókn í blómabæinn.
,,Við fáum smá sýnishorn af þessu á morgun og hugurinn er við þann leik og ég pæli ekki í bikarleiknum fyrr en að honum kemur,“ sagði Ágúst en KR vermir toppsætið með fullt hús stiga en Hamar er þar fast á hæla Vesturbæinga með fjóra sigra og einn tapleik.
Varðandi bikardrættina sagði Ágúst að hann vonaðist til þess að karlaliðið hefði bætt sig frá sinni síðustu ferð í Hólminn. ,,Við erum á leið í Hólminn aftur þar sem Snæfell malaði okkur síðast. Vonandi höfum við bætt okkur og getum strítt þeim aðeins núna. Þetta hefur gengið ágætlega hjá okkur og smám saman hef ég séð breytingar hjá hópnum en ég er með unga stráka sem eru að komast betur inn í hlutina og hver leikur hjálpar bara til við að púsla þessu betur saman,“ sagði Ágúst sem leikur bæði með karla- og kvennaliðið á útivelli í 16 liða úrslitum bikarsins.
,,Það er í raun alveg sama hverjum maður lendir á móti, það verða t.d. þrjú góð lið sem detta út í 16 liða úrslitum í kvennaflokki og eins og öll önnur lið stefnum við ekki á að verða eitt þeirra. Þetta eru útileikir hjá okkur og eigum við ekki bara að segja að við verðum á heimavelli í 8-liða úrslitunum,“ sagði Ágúst léttur í bragði.
16 liða úrslitin fara fram dagana 5.-7. desember næstkomandi en annað kvöld er stórleikur Hamars og KR í Iceland Express deild kvenna og eru körfuknattleiksunnendur hvattir til að fjölmenna í blómabæinn Hveragerði. Þeir sem ekki eiga kost á því að fara á leikinn geta fylgst með honum í beinni útsendingu hjá www.sporttv.is