Sunnudagurinn 6. desember n.k. er að baka Körfuknattleiksdeild Hamars töluverð vandræði um þessar mundir. Dagana 5. og 6. desember fara fram 16 liða úrslitin í Subwaybikar karla og eiga karla- og kvennalið Hamars bæði leik á sunnudeginum, á sama tíma. Karlaliðið mætir Snæfell í Stykkishólmi og kvennaliðið mætir KR í DHL-Höllinni.
Ágúst Sigurður Björgvinsson þjálfari Hamarsliðanna er ekki sáttur við stöðu mála en Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands segir allt hafa verið reynt til að forðast þennan árekstur.
 
,,Ég var búinn að margbiðja um að karla- og kvennalið Hamars myndu ekki spila á sama tíma í vetur. Ef eitthvað lið þekkir þessarar stöðu þá ætti það að vera Snæfell,“ sagði Ágúst en Ingi Þór Steinþórsson stýrir þar bæði karla- og kvennaliði félagsins. ,,Maður spyr sig hvort Snæfellingarnir séu smeykir við okkur og vilji hafa þetta svona,“ sagði Ágúst vonsvikinn í samtali við Karfan.is.
 
,,Mér finnst Snæfell ekki hafa ástæðu til þess að hræðast okkur miðað við síðustu úrslit karlaliðsins. Annars finnst mér þetta lítil tillitssemi og ég bara trúi því ekki að KKÍ hafi ekki meiri áhrif í þessu máli en raun ber vitni,“ sagði Ágúst en síðasti deildarleikur Hamars fór fram þann 22. nóvember og sá næsti er 30. nóvember. Ágúst bendir á að þarna eru 8 dagar á milli leikja hjá karlaliði Hamars en þegar að bikarnum kemur eigi karlaliðið deildarleik föstudaginn 4. desember og strax aftur sunnudaginn 6. desember í bikarnum. Að bikarnum loknum sé svo 12 daga leikjahlé hjá karlaliði Hamars.
 
Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ sagði við Karfan.is að allt hefði verið reynt til þess að koma í veg fyrir þennan árekstur en að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem svona staða kæmi upp.
 
,,Hamar er útilið í báðum tilfellum og hafa þarf í huga hvenær félögin hafa íþróttahúsin til afnota. Í þessu tilfelli hafa KR og Snæfell heimaleikjaréttinn og hafa um það að segja hvenær leikirnir eru spilaðir. Það var allt reynt til svona færi ekki. Það fór mikill tími hjá starfsmanni mótanefndar og mótanefnd í að finna aðra möguleika,“ sagði Hannes og bætti við að formaður KKD Hamars hefði fengið formlega tilkynningu um stöðu mála í morgun.
 
,,Hjá Hamri mættum við skilningi og þar á bæ gerði fólk sér grein fyrir að þessi staða gæti hugsanlega komið upp í vetur. Þá var Hamri einnig tilkynnt fyrr í vikunni að þessi staða gæti komið upp. Ég skil vel Ágúst þjálfara Hamars að vera ekki sáttur og félagið líka en því miður er þetta svona og ég vil ítreka að það var reynt að finna annan tíma fyrir þessa leiki,“ sagði Hannes og bætti við að niðurstaðan væri endanleg og því munu karla- og kvennalið Hamars leika sína leiki í 16 liða úrslitum Subwaybikarsins á sama tíma.
 
,,Við erum með gríðarlega stórt mótahald og þar fer fram mikil nákvæmnisvinna. Það eru margir sem gera sér grein fyrir því hversu mikill tími í raun fer í mótahaldið og svo aðrir sem hafa ekki hugmynd um stærð þess. Þannig er staðan hjá stærri sérsamböndum í dag og nákvæmnisvinnan er mikil sem mótanefndirnar leggja á sig. Ég skil fyllilega að þetta sé erfitt fyrir Ágúst og Hamar og þessvegna reyndi mótanefnd að finna aðra möguleika en því miður tókst það ekki,“ sagði Hannes.
 
Ágúst vildi ekki tjá sig að svo búnu máli um hvort hann myndi stýra karla- eða kvennaliðinu 6. desember þegar bikarleikirnir báðir fara fram.