Erlend leikmannamál Breiðabliks hafa tekið ýmsar u-beygjur undanfarna daga. Til stóð að Bojan Popovic og Josh Porter kæmu í Kópavoginn en nú hafa þeir báðir gengið úr skaftinu.
Bojan má ekki fara úr landi nema fara í herinn fyrst og Josh hætti við á síðustu stundu. Óhætt er að segja að þessar uppákomur hafi sett stjórnarmenn og þjálfara í erfiða aðstöðu og urðu þeir að spýta í lófa sína og sýna snör handtök.
 
Eftir vandlega íhugun var ákveðið að semja við Jonathan Schmidt sem er 185 sm bakvörður með írskt vegabréf. Jonathan var valinn í Úrvalslið annarrar deildar Háskólaboltans í Bandaríkjunum og leiddi skólann sinn í 8-liða úrslit þar sem þeir voru slegnir út af meisturunum. Hann var með um 19 stig, 4.5 fráköst og 6 stoðsendingar að meðaltali síðustu tvö tímabil og þykir skytta góð. Hann er að upplagi leikstjórnandi en hefur leikið sem skotbakvörður og mun væntanlega leika að mestu sem slíkur í græna búningnum.
 
Jonathan kemur til landsins í dag og verður í Blikabúningi í Ljónagryfjunni gegn Njarðvíkingum í kvöld.
 
Auk Jonathans hefur Breiðablik samið við Jeremy Caldwell sem er 203 sm rumur og rúm 100 kg. Piltur sá var að útskrifast frá Jackson State þar sem hann var með 11.7 stig og 6.7 fráköst að meðaltali. Jackson State er í fyrstu deild og þykir Jeremy gríðarlega duglegur varnarmaður og frákastari sem hleypur völlinn mjög vel.
 
Von er á Jeremy til landsins á allra næstu dögum en ólíklegt verður að teljast að hann nái leiknum gegn KR á mánudagskvöldið.
 
www.breidablik.is
 
Mynd:www.breidablik.is