Ármenningurinn Gunnar Ingi Harðarson sem er leikmaður í 8. flokki (fæddur 1996) skoraði 43 stig í leik gegn Fjölni um síðustu helgi. Leikurinn var næst síðasti leikurinn í a-riðli og var úrslitaleikur um fall niður í b-riðil.
Fjölnisliðið hefur tekið miklum framförum síðustu misseri. Liðið lék vel í fyrstu fjórum leikjum riðilsins og tapaði naumt fyrir Haukum, KR, Stjörnunni og Grindavík. Þessir fjórir leikir töpuðust samtals aðeins með 14 stiga mun og þar af tveir með einu stigi.
 
Ármann lék ekki eins vel í fyrstu fjórum leikjunum og var að tapa þeim með meiri mun en Fjölnir.
 
Úrslitaleikurinn um fallið var jafn og spennandi fyrstu tvær loturnar og í hálfleik var Fjölnir tveimur stigum yfir. Í þriðju lotunni jókst munurinn aðeins og í þeirri síðustu stakk Ármann Fjölni af.
 
Grunnurinn að sigri Ármanns var góð vörn og frábær sóknarleikur hjá Gunnari Inga. Hann hitti mjög vel og skoraði körfur í öllum regnbogans litum. Í fyrstu lotunni hafði Gunnar hægt um sig og setti niður þrjá þrista, í annarri lotunni þá hvíldi Gunnar. Bæði liðin léku upp á aukastigið í þessum leik. Í þriðju lotunni þá skoraði Gunnar 17 stig og í þeirri fjórðu þá setti hann önnur 17. Ármann vann leikinn með 58 stigum gegn 40 og heldur því áfram sæti sínu í a-riðli. Breiðablik sigraði síðan í b-riðlunum og tekur sæti Fjölnis.
 
Mynd: Gunnar Ingi ásamt júdókonunni Önnu S. Víkingsdóttur