Manu Ginobili gerði sér lítið fyrir í miðjum leik San Antonio Spurs og Sacramento Kings í gærkvöldi og sló niður leðurblöku sem hafði einhvern veginn villst inn í AT&T Center í San Antonio. Leðurblakan, sem valdi sér svo sannarlega viðeigandi dag, eða Hrekkjavöku, sveif niður að vellinum í fyrsta leikhluta og varð til þess að dómarar stoppuðu leikinn og leikmenn þutu frá. Allir nema Ginobili auðvitað sem sló óværuna úr loftinu í gólfið, með berum lófa.

 

Hann tók dýrið síðan upp úr gólfinu og afhenti vallarstarfsmanni undir dynjandi klappi og hrópum frá áhorfendum á meðan kynnirinn „blastaði“ titillagi Batman þáttanna klassísku. Ginobili tók öllu hins vegar með stóískri ró og var til í slaginn aftur eftir að hafa fengið handspritt frá þjálfara og leikurinn var flautaður á á ný.

 

„Þetta var ótrúlegt!“ sagði Tony Parker um afrek vinar síns. „Þetta er dæmigert fyrir Manu. Hann er alltaf að gera eitthvað klikkað.“

 

Manu var sjálfur með húmor fyrir uppákomunni en gerði þó lítið úr þessu öllu. „Þegar maður getur ekki troðið lengur verður maður að finna sér einhverja aðra leið til að komast í fréttirnar. Þannig að ég gerði það bara. Ég greip leðurblöku. Ég hélt ekki að þetta væri stórmál.“

 

Annars unnu San Antonio góðan sigur í leiknum og Ginobili gerði 13 stig.