Bæði lið þurftu á sigri að halda þegar Valsmenn heimsóttu Hött á Egilsstöðum í kvöld. Gestirnir höfðu aðeins unnið einn leik af fjórum í deildinni en heimamenn höfðu tapað þremur leikjum í röð í deild og bikar eftir góða byrjun í deildinni. Valsmenn tefldu fram nýjum bandarískum leikstjórnanda, Byron Davis og átti hann eftir að setja mark sitt á leikinn. Hinn gamalreyndi þjálfari Kristleifur Andrésson var Birni Einarssyni þjálfara heimamanna til halds og trausts á bekknum, en Björn er farinn að leika með liðinu þar sem það hefur vantað leikmann í stöðu skotbakvarðar.
Heimamenn byrjuðu af miklum krafti í fyrsta leikhluta. Skyttur liðsins, sem hafa ekki náð að sýna sitt rétta andlit í haust voru að setja skot niður og góður varnarleikur tryggði Hetti 9 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann 22-13. Sérstaklega náðu Davíð Ragnarsson, Kevin Jolley og Björn vel saman í upphafi og náði Björn að loka vel á Byron Davis.
 
Valsmenn voru hins vegar staðráðnir að selja sig dýrt og tóku sig saman í andlitinu í 2. leikhluta. Þeir þéttu vörnina og náðu með miklu harðfylgi að jafna leikinn í hálfleik 36-36. Ekki mikið skorað og baráttan í fyrirrúmi hjá báðum liðum.
 
Í þriðja leikhluta var stöðugur barningur og körfuboltinn ekki beint áferðarfallegur. Það skildu aldrei mörg stig á milli liðanna en Valsmenn náðu heldur frumkvæðinu og þegar leið inn í fjórða leikhluta virtust þeir ætla að ná að stinga af. Sérstaklega varð útlitið dökkt fyrir heimamenn þegar dómarar leiksins sendu Ágúst Dearborn í kælingu, en hann fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu eftir viðskipti við leikmann Vals. Undirritaður fékk ekki staðfest nákvæmlega hvað gerðist en dómarar voru vissir í sinni sök og vísuðu honum úr húsi.
 
En Hattarmenn gáfust ekki upp og náðu af miklu harðfylgi að minnka muninn. Náðu að breyta stöðunni úr 56-66 í 68-71 á stuttum tíma. Munaði þar mestu um góðan leik Davíðs Arnars Ragnarssonar, Björgvins Karls Gunnarssonar og Björns Einarssonar þjálfara sem allir settu niður mikilvæg skot en Björn og Davíð skoruðu t.a.m. 12 af síðustu 18 stigum heimamanna. Munurinn var kominn niður í 1 stig þegar Hattarmenn komust í sókn með rúmar 20 sekúndur eftir af leiktímanum. Kevin Jolley var leitaður uppi undir körfunni og brást ekki, heldur skilaði tveimur stigum og Höttur kominn með eins stigs forystu og sex sekúndur eftir. Valsmenn gáfu strax inn, komu boltanum á Byron Davis sem keyrði upp völlinn og þegar 2 sekúndur var eftir af leiktímanum flautaði annar dómari leiksins að brotið hefði verið á honum úti á velli. Valsmenn voru komnir með skotrétt og Davis fór á vítalínuna þar sem honum brást ekki bogalistin og tryggði Valsmönnum sigurinn 75-74.
 
Heimamenn voru vægast sagt óánægðir með þessa síðustu ákvörðun dómarans og sannast sagna var það vandséð á hvað villan var dæmd. Illskiljanlegt að mati heimamanna og höfðu sumir á orði að Valsmenn hefðu þarna fengið gefins tvö vítaskot og sigur. En vel gert hjá Byron Davis sem var sannarlega betri en enginn fyrir Valsmenn í kvöld.
 
Sem áður segir var Davíð Ragnarsson heitur í liði heimamanna og var með 21 stig, þar af kláraði hann fimm af níu þriggja stiga skotum sínum. Kevin Jolley var traustur að venju, skoraði 18 stig og tók 18 fráköst. Björn Einarsson var með 14 stig og Björgvin Karl Gunnarsson skoraði 13.
 
Stigahæstu leikmenn Vals voru þeir Byron Davis með 26 stig en hann var svellkaldur á vítalínunni og tryggði Val þennan sigur. Þá skoraði Guðmundur Ásgeirsson 13 stig en aðrir minna.

Myndir

 
www.hottur.is – Stefán Bogi Sveinsson