Útvarpsmennirnir Freyr Eyjólfsson og Þórður Helgi Þórðarson hafa lagt heiðurinn að veði fyrir viðureign Njarðvíkur og KR í 32 liða úrslitum Subwaybikarsins en slagur liðanna fer fram í Ljónagryfjunni í kvöld.
Freyr er þátttarstjórnandi Morgunvaktarinnar á Rás 2 ásamt Láru Ómarsdóttur og þeim til halds og trausts í tæknimálum í morgun var Þórður Helgi Þórðarson, einnig þekktur sem Doddi litli eða Love Guru. Þegar komið var að íþróttaspjallinu á Morgunvaktinni í morgun tókst Þórði að pota slag Njarðvíkur og KR að í umræðunni en fyrir þá sem ekki vita er Freyr Eyjólfsson annálaður KR-ingur og Þórður Njarðvíkingur.
 
Nú, eins og dyggum stuðningsmönnum sæmir hófust upp pissukeppnir og metingur millum Freys og Þórðar sem lyktaði með því að Lára Ómarsdóttir steig fram með áhugavert veðmál/áskorun. Lára sagði að stuðningsmaður þess liðs sem tapaði þyrfti í næsta þætti, á mánudag, að mæta í búning andstæðinganna og syngja stuðningslag sigurliðsins.
 
Eins og alþjóð veit þá er KR-lagið með Bubba eitthvert þekktasta íslenska stuðningslagið og eflaust ófáir sem þekkja textann við það lag en sýnu færri þegar kemur að stuðningslagi Njarðvíkinga. Það verður athyglisverð rannsóknarvinna fyrir Frey Eyjólfsson að hafa uppi á textanum og laginu ef KR skyldi liggja í Ljónagryfjunni í kvöld.
 
Stillið endilega á Morgunvaktina á Rás 2   á mánudagsmorgun því orð skulu standa!