Í kvöld tók Grindavík á móti Hamri, í Röstinni í Grindavík. Síðan árið 1999 hafði Hamar aðeins 1 sinni náð að landa sigri á Grindavík, en það var árið 2001 og fór sá leikur 86-105. Fyrir leikinn var tölfræðin því ekki í liði Hamars og ljóst var að erfitt myndi reynast fyrir Hvergerðingana að brjóta ísinn. Einungis nokkrar hræður voru mættar í stúkuna til þess að styðja Hvergerðingana en mun meira heyrðist í þeim heldur en nokkurntíma öllum Grindvíkingunum sem voru mættir.
Hamar var mun sterkari aðilinn í 1. Leikhluta. Ragnar Á. Nathanaelsson stóð sig frábærlega í byrjun og tók hvert varnarfrákastið á fætur öðru. Hann varði svo 2 skot frá Ómari Erni Sævarssyni með stuttu millibili og það var eins og það hefði gjörsamlega slokknað á Ómari við þetta því að það sást ekkert til hans það sem eftir lifði leiksins. Niðurstaðan eftir fyrsta leikhluta: 12-22 gestunum í vil.
 
Hamar hélt áfram þaðan sem frá var horfið í 2. Leikhluta. Í stöðunni 14-26 kom hinsvegar 3. mínútna stigahlé og vildi enginn bolti hjá hvorugu liði niður í körfuna. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 29-41 fyrir gestunum og ljóst var að heimamenn þyrftu aldeilis að hysja upp um sig buxurnar ef ekki átti illa að fara.
 
Hamars-menn gáfu ekkert eftir og héldu þeir sér vel niðri á jörðinni í seinni hálfleik. Þegar um 5 mínútur voru eftir af 3. Leikhluta var Hamar með 18 stiga forskot 34-52. Fyrir lokaleikhlutann var staðan svo 48-65.
 
Í upphafi 4. Leikhluta juku gestirnir forskot sitt í 20 stig, 50-70, en það var mesti munur á milli liðanna í leiknum. Þá kom hinsvegar góður kafli hjá heimamönnum og skoruðu þeir 13 stig á móti einungis 4 stigum Hamars og staðan orðin 63-74 þegar 6 mínútur voru eftir. Þá skoraði Marvin Valdimarsson mikilvægan þrist fyrir gestina. Þá komu 2 körfur frá Grindvíkingum, einn tvistur og einn þristur og staðan orðin 68-77 og 3 mínútur eftir. Enn á ný var það Marvin Valdimarsson sem setti mikilvægan þrist og ljóst var að mikið þyrfti að gerast til þess að gestirnir myndu tapa þessu niður. Lokaniðurstaðan: 77-87 Hamri í vil og óvæntur sigur staðreynd.
 
Atkvæðamestur í liði Hamars var Andre Dabney með 34 stig og 6 stoðsendingar. Næstur á eftir honum komu svo Marvin með 21 stig, Svavar Páll Pálsson með 12 og Viðar Örn Hafsteinsson með 10. Einnig var Páll Helgason (6 stig) að gera ágætis hluti sem og Ragnar Ágúst (9 fráköst) eins og áður var sagt frá.
 
Hjá Grindavík var það Þorleifur Ólafsson sem virtist eini maðurinn með almennilegri rænu og skoraði hann 32 stig. Næstur var Páll Axel Vilbergsson með 11 stig og Brenton Birmingham með 10.
 
Grindavík tóku 48 þrista í leiknum en skoruðu einungis úr 14 þeirra (14/48=29% nýting)
Hamars-menn voru með 23 þrista og 11 hitta (11/23=48% nýting)
 
 
Pistill: Jakob F. Hansen
Mynd: Þorsteinn G. Kristjánsson – www.saltytours.is