Byron Scott hefur verið leystur frá störfum sem þjálfari New Orleans Hornets eftir slaka byrjun á tímabilinu og er þannig fyrsti þjálfarinn sem er látinn taka pokann sinn þennan veturinn. Þetta kemur fram á Yahoo! Sports í kvöld. Framkvæmdastjóri félagsins, Jeff Bower, hefur tekið við taumunum, en honum til halds og trausts er Tim Floyd sem þjálfaði lið Hornets fyrir um fimm árum.

Brottrekstur Scott, sem gerði garðinn frægan sem leikmaður með gullaldarliði LA Lakers á níunda áratugnum, er nokkuð óvæntur þrátt fyrir að Hornets hafi einungis unnið þrjá af fyrstu níu leikjum tímabilsins. Scott stýrði liðinu til 56 sigra veturinn 2007-2008 og var valinn þjálfari ársins í kjölfarið. Gengi liðsins í fyrra og þar sem af er hefur hins vegar verið lítið til að hrópa húrra yfir og raunar virðist liðið vera rekið með sparnað í fyrirrúmi þar sem ekkert hefur verið bætt við í mannskap fyrir utan skiptin á Emeka Okafor sem kom frá Charlotte í skiptum fyrir Tyson Chandler.

 
Bower tekur sín fyrstu skref á þjálfaraferlinum á morgun þegar Hornets mæta Portland Trail Blazers, en fastlega má búast við því að Scott verði inni í myndinni næst þegar þjálfarastaða losnar hjá NBA liði. Jafnvel er talið að hann muni koma sterklega til greina ef Phil Jackson hjá Lakers hættir eftir tímabilið.