Í dag var dregið í 16 liða úrslit Subwaybikarkeppninnar og er óhætt að segja að viðureign KR og Hamars í kvennaflokki og leikur Snæfells og Hamars í karlaflokki séu stærstu leikir 16 liða úrslitanna. Karfan.is grennslaðist fyrir í veglegu tölfræðisafni KKÍ og þar kom í ljós að bikartitlarnir dreifast betur í karlaflokki.
Bikarkeppnin í karlaflokki er reyndar nokkuð eldri en sú í kvennaflokki en karlarnir hófu að slást um bikarinn leiktíðina 1964-1965. Það árið hrósuðu Ármenningar sigri og urðu fyrstu bikarmeistararnir á Íslandi. Keppni í bikarnum hófst í kvennaflokki leiktíðina 1974-1975. Það árið unnu Þórsarar frá Akureyri en það er eini bikartitill félagsins í körfubolta.
 
Keflavík í kvennaflokki hefur unnið flesta bikartitla eða 11 talsins af þeim liðum sem nú skipa 16 liða úrslitin. Í karlaflokki eru það Njarðvíkingar sem oftast hafa orðið bikarmeistarar af þeim liðum sem skipa 16 liða úrslitin eða alls 8 sinnum. KR-ingar hafa þó unnið bikarinn oftast eða 11 sinnum og síðast leiktíðina 1990-1991 en þeir féllu út þessa leiktíðina í 32 liða úrslitum.
 
Bikartitlar kvennaliðanna í 16 liða úrslitum:
 
Keflavík: 11
KR: 10
Haukar: 4
Þór Akureyri: 1
Grindavík: 1
Hamar: 0
Grindavík b: 0
Njarðvík: 0
Valur: 0
Laugdælir: 0
Stjarnan: 0
Keflavík b: 0
Skallagrímur: 0
Fjölnir: 0
Snæfell: 0
 
 
Bikartitlar karlaliðanna í 16 liða úrslitum:
 
Njarðvík: 8
Keflavík: 5
Grindavík: 4
Ármann: 3
Valur: 3
ÍR: 2
Snæfell: 1
Breiðablik: 0
KFÍ: 0
Hrunamenn: 0
ÍBV: 0
Laugdælir: 0
Tindastóll: 0
Skallagrímur: 0
Fjölnir: 0
Hamar: 0
 
Eins og sést á þessari upptalningu hafa fimm lið sem nú eru í 16 liða úrslitum í kvennaflokki áður orðið bikarmeistarar en sjö lið í karlaflokki.
 
 
Mynd/Hildur Sigurðardóttir og félagar í KR eiga titil að verja.