Bikarmeistarar Stjörnunnar færðu Njarðvíkingum sinn fyrsta deildarósigur í Iceland Express deild karla í kvöld. Lokatölur í Ásgarði voru 82-75 Stjörnunni í vil þar sem félagarnir Fannar Helgason og Justin Shouse gerðu báðir 21 stig fyrir heimamenn. Sundurleitur her Njarðvíkinga virkaði eins og villuráfandi sauðir á lokasprettinum þar sem hver leikmaðurinn á fætur öðrum reyndi sólóverkefni sem Stjörnuvörnin kvaddi í kút. Samstöðusigur Stjörnunnar því staðreynd og bikarmeistararnir því eflaust fegnir að vera búnir að binda enda á þriggja leikja taphrynu sína.
Ef Njarðvíkingar voru óviðbúnir einhverju í kvöld þá var það að Fannar Helgason skyldi láta rigna yfir þá þremur þristum í upphafi leiks. Eftir þann þriðja frá Fannari var staðan orðin 13-8 Stjörnunni í vil og fyrir vikið varð Friðrik Stefánsson að fara út á völlinn og reyna að hemja Fannar. Að svo búnu opnaðist vörn Njarðvíkinga og það nýttu Stjörnumenn sér vel og leiddu 25-19 eftir upphafsleikhlutann.
 
Jovan Zdravevski reyndist Njarðvíkingum erfiður og var ógnandi og Fannar splæsti í fjórða þristinn og breytti stöðunni í 31-23 Stjörnunni í vil. Hér reyndi Magnús Þór Gunnarsson að berja Njarðvíkinga áfram og minnkaði hann muninn í 32-30 er hann skoraði og fékk villu að auki. Varnarleikur Njarðvíkinga var óstöðugur og Páll Kristinsson fékk snemma sína þriðju villu í öðrum leikhluta og varð að hafa sig hægan.
 
Jóhann Árni Ólafsson var seigur í fyrri hálfleik í Njarðvíkurliðinu og jafnaði metin í 41-41 með þriggja stiga körfu en Stjörnumenn tóku á rás undir lok fyrri hálfleiks þar sem Jovan Zdravevski setti niður þrist og þar við sat og Stjarnan leiddi 50-45 í hálfleik.
 
Jóhann Árni Ólafsson var stigahæstur í liði Njarðvíkinga með 16 stig í hálfleik en Fannar Helgason var með 18 stig og 11 fráköst í liði Stjörnunnar.
 
Í upphafi síðari hálfleiks var ljóst að nokkrir af sterkustu leikmönnum beggja liða væru á leið í bullandi villuvandræði sem og síðar varð raunin. Magnús Þór Gunnarsson kom Njarðvíkingum yfir 50-52 með þriggja stiga körfu og upp hófst spennandi barátta þar sem liðin skiptust á forystunni.
 
Jóhann Árni og Friðrik Stefánsson voru fyrirferðamiklir í Njarðvíkurliðinu í þriðja leikhluta og nokkuð hitnaði í hamsi hjá báðum liðum og oft mátti litlu muna til að syði uppúr. Njarðvíkingar unnu þriðja leikhluta 16-23 og leiddu 66-67 fyrir fjórða leikhluta.
 
Með þrjá tapleiki í röð á bakinu héldu Stjörnumenn inn í lokasprettinn og héldu spilunum þétt að sér á meðan gestirnir tóku ótímabær þriggja stiga skot. Fannar og Magnús Helgasynir fengu snemma sína fjórðu villu í liði Stjörnunnar og Teitur, þjálfari liðsins, setti þá í gjörgæslu.
 
Njarðvíkingar reyndu fyrir sér í svæðisvörn rétt eins og þeir gerðu undir lok fyrri hálfleiks en Stjörnumenn náðu að teygja ágætlega á henni þó skotin hjá þeim væru ekki að detta niður. Heimamenn dóu þó ekki ráðalausir og sóttu þá stíft að körfunni og fengu talsvert að villum á Njarðvíkinga.
 
Eftir mikla eyðimerkurgöngu hjá Njarðvík þar sem m.a. sáust skot hjá miklum skotmönnum sem ekki rötuðu á hringinn þá náði Guðmundur Jónsson að bora niður þrist fyrir gestina og minnka muninn í 78-75. Hér voru 2.45 mín. til leiksloka og eftir þessa körfu frá Guðmundi fór allt í frost í Njarðvíkurliðinu. Þeir skoruðu ekki stig það sem eftir lifði leiks! Slæmar ákvarðanatökur og sólóverkefni leikmanna gegn einbeittri vörn Stjörnunnar færði Njarðvíkingum sinn fyrsta ósigur í deildinni.
 
Jovan Zdravevski gaf ekkert eftir á lokasprettinum og reyndist Njarðvíkingum erfiður ljár í þúfu í kvöld. Undir lokin fóru gestirnir aftur í maður á mann vörn en það virtist litlu skipta. Þegar 32 sekúndur voru til leiksloka má segja að Justin Shouse hafi gert út um leikinn er hann keyrði upp að Njarðvíkurkörfunni, skoraði og fékk villu að auki. Justin brenndi reyndar af vítinu og staðan því 81-75. Njarðvíkingum tókst ekki að skora og Ólafur Aron Yngvason, uppalinn Njarðvíkingur sem nú leikur með Stjörnunni, gerði síðustu stig leiksins fyrir Garðbæinga af vítalínunni. Lokatölur því 82-75 og bikarmeistararnir því einir um að hafa lagt topplið Njarðvíkur og Keflavíkur á leiktíðinni.
 
Justin Shouse og Fannar Helgason gerðu báðir 21 stig fyrir Stjörnuna í kvöld. Fannar var einnig með 15 fráköst og 4 stoðsendingar en það sem athygli vekur er að leikstjórnandinn lágvaxni, Justin Shouse, var þriðji frákastahæsti leikmaður vallarins með 11 fráköst. Eins og fyrr segir var Jovan ötull í kvöld og gerði 20 stig ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 7 stoðsendingar.
Jóhann Árni Ólafsson gerði 22 stig í Njarðvíkurliðinu og var með 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Næstir Jóhanni komu þrír Njarðvíkingar með 12 stig en það voru þeir Magnús Þór Gunnarsson, Guðmundur Jónsson og Friðrik Stefánsson sem einnig var með 14 fráköst.
 
Það vantar svo ekki stórleikina í næstu umferð þegar bikarmeistarar Stjörnunnar heimsækja Íslandsmeistara KR og Njarðvíkingar taka á móti Keflavík í Suðurnesjatoppslag.
 
 
Dómarar leiksins:
Kristinn Óskarsson
Eggert Þór Aðalsteinsson