KR vann í kvöld sinn sjöunda leik í röð í Iceland Express deild kvenna er þær rúlluðu yfir Val 73-43. Margrét Kara Sturludóttir var stigahæst í liði KR með 25 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Þetta er besta byrjun KR síðan árið 1999 en þá leiktíðina vann KR alla 20 deildarleiki sína. Benedikt Guðmundsson þjálfari KR sagðist sáttur við byrjun KR á Íslandsmótinu en að öðru máli hefði gengt um byrjun liðsins gegn Val í kvöld.
,,Byrjunin á leiknum var hræðileg í kvöld. Valur komst í 13-0 en varðandi Íslandsmótið sjálft þá getur maður lítið kvartað í stöðunin 7-0,“ sagði Bendikt sem síðustu tvo leiki hefur leikið án bandaríska bakvarðarsins Jenny Finora.
 
,,Það er sitt lítið af hverju að hjá henni. Þetta fór endanlega hjá henni þegar hún tognaði aftan í læri á æfingu og fram að því hafði hún veirð að glíma við beinhimnubólgu og slæm hné,“ sagði Benedikt og greindi aukareitis frá því að Finora yrði frá næstu 4-5 vikurnar. ,,Hún verður vonandi frísk og fersk eftir það og við erum alls ekki að líta í kringum okkur eftir öðrum leikmanni. Jennifer er að þjálfa hjá KR og hún eykur breiddina í liðinu en við erum ekkert háð henni,“ sagði Benedikt en áður en Finora meiddist var hún með 12,8 stig og 2,4 fráköst að meðaltali í leik.
 
,,Aðri leikmenn hafa verið að stíga upp í fjarveru Finora og það er t.d. gaman að sjá Margréti Köru þroskast í hverri viku sem leikmaður og vonandi er hún bara að springa út því hún hefur alla burði til þess,“ sagði Benedikt en á hann von á vaxandi mótspyrnu í deildinni þar sem allir vilja nú vinna taplaust lið KR?
 
,,Mótspyrnan á eftir að vaxa með hverjum leik, við eigum eftir að fá Keflavík og svona lið inn í þennan pakka og liðin eiga bara eftir að verða betri og vonandi verðum við það líka. Flest lið vaxa á tímabilinu og þau sem gera það ekki eru væntanlega í vondum málum en stórliðin vaxa. Svo verða oft einhverjar breytingar á þessum liðum svo maður er ekki alveg búinn að átta sig ennþá á landslaginu í þessu. Einhver lið fóru t.d. í tvo útlendinga í fyrra og það gæti breytt einhverju ef það myndi gerast núna,“ sagði Benedikt og kveðst hafa gaman af yfirfærslunni í kvennaþjálfun.
 
,,Ég hef mjög gaman af þessu og mér finnst ég vera ferskur í þessu og er að skemmta mér konunglega. Ég sagði allan tímann að ef stelpurnar höndla mig þá erum við í góðum málum og þær hafa ekki þorað að gefa annað í skyn,“ sagði Benedikt gamansamur en bætti við að leikmenn KR hafi tekið vel öllu sem hann hafi látið frá sér til þessa.
 
,,Þær hlusta og vilja bæta sig og fara eftir því sem þeim er sagt, þær taka gagnrýni og hrósi svo þetta rúllar ennþá ágætlega,“ sagði Benedikt og eflaust myndu margir segja að hlutirnir gengju nokkuð betur en ágætlega í Vesturbænum í stöðunni 7-0 í deildinni.
 
Fyrstu leikir KR í deild síðan 1999:
 
2010: 7 sigurleikir í röð frá upphafi tímabils…
2009: Grindavík – KR 63-73 (Sigur í fyrsta leik og tap í næsta)
2008: Haukar – KR 74-71 (Tap í fyrsta leik)
2007: Léku í 1. deild kvenna
2006: KR – Breiðablik 58-89 (Tap í fyrsta leik)
2005: UMFG – KR 65-55 (Tap í fyrsta leik)
2004: ÍR – KR 72-52 (Tap í fyrsta leik)
2003: UMFN – KR 59-77 (Sigur í fyrsta leik og tap í næsta)
2002: Keflavík – KR 81-65 (Tap í fyrsta leik)
2001: ÍS – KR 60-50 (Tap í fyrsta leik)
2000: DHL-Höllin KR – UMFG (Sigur í fyrsta leik og tap í næsta)
1999: KR vann alla 20 deildarleiki sína á tímabilinu!