Grindavíkurstelpur byrjuðu af miklum krafti í gærkvöld og eftir rétt rúmar 4 mínútur var staðan orðin 10-0 Grindavík í vil gegn Hamri í Iceland Express deild kvenna. Eftir það komust Hamarsstelpur smátt og smátt inn í leikinn en þær spiluðu án Kristrúnar Sigurjónsdóttur sem hvílir samkvæmt læknisráði.
Þrátt fyrir viðleitni Hamars til að komast inn í leikinn þá var baráttan öll Grindavíkurmegin unnu þær frákastabaráttuna 14-4 í fyrsta leikhluta og þar af 7 sóknarfráköst sem gáfu Grindavík mörg tækifæri til að skora. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 18-10 fyrir Grindavík.
 
Baráttan hélt áfram í 2 leikhluta og var leikurinn nokkur hraður. Helga Hallgrímsdóttir fór fyrir Grindavíkurliðinu með frábærri baráttu á báðum endum vallarins meðan Hamar átti í nokkrum erfiðleikum og var eins og Hamarsliðið væri að læra að spila körfubolta án Kristrúnar. Lokakarfan kom í lok leikhlutans þegar Ingibjörg Jakobsdóttir keyrði að körfunni en skotið klikkaði en með mikilli baráttu náði Helga Hallgrímsdóttir sóknarfrákastinu og gaf á Ingibjörgu sem skoraði góða körfu þegar leiktíminn rann út og staðan 34-29 fyrir Grindavík.
 
Þegar liðin mættu til leiks í 3ja leikhluta þá mættu Hamarsstelpur vel stemmdar til leiks og náðu að jafna leikinn 36-36 um miðjan hálfleikinn. Þá tók Helga Hallgrímsdóttir til sinna ráða og skoraði næstu 4 stig fyrir Grindavík auk þess að bæta við enn einu sóknarfrákasti og náði muninum upp í 40-36 og stuttu síðar var staðan orðin 44-36 áður en Hamar svara. Grindvíkingar héldu frumkvæðinu út leikhlutann og leiddu með 5 stigum fyrir lokaleikhlutann.
 
Hamar byrjaði fjórða leikhluta á sterkri 2-3 svæðisvörn. Margir myndu halda það væri veisla fyrir þriggja stiga skyttur Grindavíkurliðsins en þær frusu. Skotin duttu ekki eða þær þorðu ekki að skjóta, þær sáu illa lausa manninn inn í teig og þegar boltinn barst inn í teig þá fóru stuttu skotin og lay-hoppinn ekki ofan í. Á sama tíma gekk allt upp hjá Hamar, brjáluð vörn og þrír þristar frá Fanney Guðmundsdóttur og Koren Schram breytti stöðunni í 48-55. Eftir þetta var það Hamar sem stjórnaði leiknum.
 
Grindavíkurstelpur urðu stressaðar við að missa niður forskotið og fóru að taka slæmar ákvarðanir í sókninni á meðan Hamarsstelpur héldu haus og unnu leikinn 58-63.
 
Bestar í liði Hamars voru Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með 14 stig og 4 stoðsendingar og Koren Schram með 19 stig og þar af 11 stig í fjórða leikhluta. Einnig átti Guðbjörg Sverrisdóttir góða spretti og skoraði 13 stig.
 
Hjá Grindavík átti Helga Hallgrímsdóttir mjög góðan leik með 20 fráköst (11 í sókn) og 11 stig en hefði mátt nýta færin sín betur en hún var með 4/12 í 2ja stiga skotum. Michele DeVault var með 15 stig en hvarf alveg í 4ja leikhluta þegar Grindavíkurliðið vantaði leiðtoga til að klára leikinn.
 
Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Mynd: Þorsteinn G. Kristjánsson www.saltytours.is